Hagvöxtur í Kína hefur ekki verið minni frá árinu 1990 á sama tíma og fæðingartíðni hefur aldrei verið minni. Það varpar ljósi á þær áskoranir sem stjórnvöld þar í landi glíma við þrátt fyrir vopnahlé í tollastríði við Bandaríkin, segir í frétt Financial Times.

Hagvöxtur jókst um 6,1 prósent á árinu 2019 sem var undir væntingum greinenda. Einkaneysla er þróttlítil, atvinnuleysi fer vaxandi og vandræði eru í fjármálakerfinu.

Stóra spurningin er hvort það sjái fyrir endann á afleiðingum tollastríðsins eða hvort vandræði innanlands hafi ekki enn birst að fullu í hagtölum. Horft er til banka, framleiðslufyrirtækja og fasteigna í þeim efnum.

Tveimur dögum fyrir birtingu hagtalnanna sömdu Kína og Bandríkin um að leggja til hliðar deilur sínar en löndin hafa átt í tollastríði í tvö ár. Um er að ræða fyrsta áfanga í að vinda ofan af deilunum. Sérfræðingar segja að samningurinn bendi til að tollastríðið muni allavega ekki færast í aukana.