Una Jónsdóttir, forstöðumaður hagfræðideildar Landsbankans segir að vænta megi nokkuð myndarlegs hagvaxtar á þessu ári. Þetta sagði hún í sjónvarpsþættinum Markaðurinn sem sýndur verður á sjónvarpsstöðinni Hringbraut klukkan 19:00 í kvöld og aftur klukkan 21:00.

„Við höfum fengið tölur um landsframleiðslu á fyrri hluta árs sem eru mjög sterkar. Einkaneyslan á fyrri helmingi ársins var einnig mikil,“ segir Una og bætir við að heimilin hafi verið að vinna upp neyslu sem færðist til vegna faraldursins.

„Vísbendingar eru um mikinn hagvöxt á fyrri helmingi ársins en ég held að það fari aðeins að hægja á því eftir þetta ár.“

Í þættinum var einnig rætt um stýrivaxtahækkun Seðlabankans sem tilkynnt var um í morgun og verðbólguhorfur. Peningastefnunefnd Seðlabankans tilkynnti í morgun að stýrivextir yrðu hækkaðir um 0,25 prósentustig og standa því nú í 5,75 prósentum.

Una segir að greina hafi megið á fundi peningastefnunefndar í morgun annan tón en verið hefur.

„Það var hægt að lesa það út úr þessum fundi og sérstaklega umræðunni sem fór fram í kjölfarið að það er kominn annar tónn í Seðlabankann. Seðlabankastjóri gaf það í skyn að toppnum væri náð í vaxtahækkunarferlinu. En það byggir á stöðunni eins og hún er núna. Það getur svo sem margt breyst fram að næsta fundi.“