Hagvöxtur upp á 6,1 prósent á öðrum fjórðungi ársins er að mestu drifinn áfram af útgjöldum Íslendinga erlendis samkvæmt Hagstofunni.

Auk einkaneyslunnar hefur mikil aukning í komu erlendra ferðamanna til landsins örvað vöxtinn enn frekar borið saman við árið í fyrra.

Hagvöxtur á Íslandi mælist nú talsvert meiri en í samanburðarlöndunum. Innan evrusvæðisins er áætlað að landsframleiðsla hafi aukist um 3,9 prósent að raungildi borið saman við sama tímabil fyrra árs, 1,6 prósent í Bandaríkjunum en um 7,3 prósent á Íslandi.

Hagvöxtur á Íslandi er langt umfram það sem þekkist í samanburðarlöndum.

Í frétt Hagstofunnar kemur jafnframt fram að landsframleiðsla hafi verið 913,3 milljarðar króna í apríl, maí og júní og jókst þannig um 6,1 prósent að raungildi borið saman við sama tímabil í fyrra.

Halli af vöru- og þjónustuviðskiptum við útlönd dróst saman og jókst landsframleiðslan umfram þjóðarútgjöld.

Fyrstu sex mánuði ársins er áætlað að landsframleiðslan hafi vaxið um 6,8 prósent að raungildi borið saman við landsframleiðslu fyrstu sex mánuði ársins 2021

Samkvæmt mælingum á vinnumagni, sem öllu jöfnu gefa sterka vísbendingu um framleitt magn vöru og þjónustu, jókst heildarfjöldi vinnustunda um 8,7 prósent á tímabilinu borið saman við annan ársfjórðung 2021.

Á sama tímabili er áætlað að starfandi einstaklingum hafi fjölgað um 8,9 prósent og störfum um 10,2 prósent. Á öðrum ársfjórðungi 2022 mælist heildarfjöldi vinnustunda þó enn um 2,3 prósentum minni en hann var á öðrum ársfjórðungi 2019.