Leiðandi hagvísir Analytica hækkaði í febrúar og stendur nú í sínu hæsta gildi síðan í febrúar á síðasta ári. „Tölur síðustu mánaða hafa verið endurskoðaðar uppávið. Miðað við fyrirliggjandi aðferðafræði er viðsnúningurinn í september nú staðfestur og jákvæð túlkun nú því afdráttarlausari en áður,“ segir í umfjöllun Analytica, sem telur nú að viðsnúningur efnahagslífsins muni hefjast af fullum krafti á öðrum eða þriðja ársfjórðungi.

Nánast allir undirliðir hagvísisins hækka frá því í janúar. Stærsta framlag hækkunarinnar er vegna hækkana á væntingavísitölu Gallup og aukins fiskafla milli mánaða: „Þrátt fyrir sterkar jákvæðar vísbendingar þá er ennþá sérstök óvissa tengd ferðaþjónustu, mögulegum tímasetningum bólusetninga vegna COVID-19 farsóttarinnar og framgangi hennar erlendis,“ segir jafnframt í umfjöllun fyrirtækisins.

Hagvísiri Analytica er vísitala sem gefur vísbendingu um vendipunkta í efnahagsumsvifum að sex mánuðum liðnum. Vísitala febrúar gefur því vísbendingu um efnahagsumsvif í ágúst á þessum ári.

Hlutverk vísitölunnar er að veita skýra sýn á efnahagshorfur og vara tímanlega við viðsnúningi í efnahagsumsvifum.