Eftir samfelldan hagvöxt frá og með árinu 2011 er nú útlir fyrir efnahagssamdrátt á yfirstandandi ári. Þetta kemur fram í þjóðhags- og verðbólguspá Landsbankans. Gert er þó ráð fyrir að samdrátturinn verði lítill og skammvinnur.

Töluverð þensla hefur verið í efnahagslífinu á síðustu árum en hagkerfið er nú í meira jafnvægi og í mun sterkari stöðu en í lok fyrri þensluskeiða hér á landi. Hátt stýrivaxtastig og góð staða ríkisfjármála gerir það jafnframt að verkum að hægt verður að beita hagstjórnartækjum af töluverðum þunga til að milda áhrif samdráttarins.

Áföll í lykilútflutningsgreinum

Hagvöxtur í fyrra var 4,6% samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofu Íslands og var þannig öllu meiri en Landsbankinn hafði spáð fyrir í október í fyrra þar sem hann gerði ráð fyrir 3,9% hagvexti. Á sama tíma var reiknað með 2,6% hagvexti í ár en eftir meiriháttar áföll í lykilútflutningsgreinum, ferðaþjónustu og sjávarútvegi í formi gjaldþrots WOW air og loðnubrests, er nú gert ráð fyrir 0,5% samdrætti landsframleiðslu.

Í spánni kemur fram að samdrátturinn vari líklega stutt og strax á næsta ári megi gera ráð fyrir 2,5% hagvexti, studdum af auknum fjárfestingum hins opinbera, íbúðafjárfestingu og hægfara viðsnúningi í ferðaþjónustunni.

Verðbólga nái hámarki á næsta ári

Á fyrsta ásfjórðungi ársins 2019 mældist verðbólga 3,1% en gert er ráð fyrir að hún nái hámarki á fyrri árshelmingi næsta árs og fari upp í 3,6%. Þá er gert ráð fyrir að hún leiti aftur niður og nái verðbólgumarkmiðinu, 2,5%, á öðrum ársfjórðungi ársins 2021.

Búist er þá við að minni óvissa varðandi launaþróun næstu ára í kjölfara undirritunar kjarasamninga og nokkuð stöðugt gengi krónunnar slái á langtímaverðbólguvæntingar í atvinnulífinu. Þetta ásamt inngripum seðlabankans á gjaldeyrismarkaði skapar svo verulegt svigrúm til lækkunar stýrivaxta. Þannig er gert ráð fyrir að stýrivextir lækki um rúmt eitt prósentustig í nokkrum skrefum fram á mitt ár 2021.

Ýmsir óvissuþættir

Fram kemur í spánni að í ljósi viðsnúnings í efnahagsþróuninni sem nú er framundan aukist svo hættan á að hagstjórnarmistök geti haft neikvæð áhrif á þá aðlögun sem þarf að eiga sér stað í stjórn peningamála og ríkisfjármála. Auk þess geti mikil óvissa um þróun í fjölda ferðamanna á næstu árum haft mikil áhrif á þróun þessarar stærstu útflutningsatvinnugreinar þjóðarinnar.

Þannig er gert ráð fyrir um 14% lækkun ferðamanna á yfirstandandi ári en síðan hóflegri fjölgun næstu tvö ár. Ef fækkun ferðamanna verður aftur á móti mun meiri en spáin gerir ráð fyrir gæti það dýpkað samdráttinn á þessu ári töluvert og hægt á efnahagsbatanum komandi ár.