Hagstofa Íslands hefur birt leiðréttingu á tölum um veltu greiðslukorta fyrir ágúst og júlí. Leiðréttar tölur sýna samdrátt í stað aukningar. Þetta er þriðja leiðrétting Hagstofunnar á skömmum tíma.

Í tilkynningu frá stofnuninni segir að komið hafi í ljós villa í birtum tölum um veltu greiðslukorta. Áður birtar tölur hafi byggt á villu í gögnum frá greiðslukortafyrirtækjum en sú villa hafi nú verið leiðrétt.

Samkvæmt leiðréttum tölum minnkaði velta erlendra greiðslukorta í ágúst um 2,7 prósent frá fyrra ári. Tölurnar sem Hagstofan birti í síðustu viku sýndu hins vegar 4,7 prósenta aukningu. Þá voru tölur um kortaveltuna í júlí leiðréttar úr 5,1 prósenta aukningu í 0,7 prósenta samdrátt.

Þetta er sem áður segir í þriðja sinn á skömmum tíma sem stofnunin hefur þurft að leiðrétta áður birtar tölur. Í lok ágúst tilkynnti Hagstofan að landsframleiðslan á fyrsta ársfjórðungi hefði verið endurskoðuð. Samkvæmt endurskoðun dróst landsframleiðslan saman að raungildi um 0,9 prósent frá sama ársfjórðungi fyrra árs, borið saman við 1,7 prósenta vöxt samkvæmt áður birtum niðurstöðum.

Hagstofan birti síðan vikuna á eftir leiðréttingu á landsframleiðslutölum á öðrum ársfjórðungi. Var fjárfesting tímabilsins vanmetin um 9,1 milljarða króna á verðlagi ársins. Eftir leiðréttingu mældist vöxtur landsframleiðslunnar 2,7 prósent að raungildi á öðrum ársfjórðungi, samanborið við 1,4 prósent samkvæmt áður birtum niðurstöðum.