Eitt sinn sagði ónefndur ráðamaður að venjuleg hagfræðilögmál giltu ekki á Íslandi. Þetta var nokkuð haft í flimtingum á þeim tíma, en staðreyndin er þó sú að þessi skoðun hefur löngum verið býsna útbreidd í ræðu og riti, um samband hagstjórnar og þeirra grundvallarþátta í hagkerfinu sem henni er ætlað að halda við kúrsinn.

Á meðal slíkra lífseigra klisja hafa verið fullyrðingar á borð við að Seðlabankinn muni aldrei ná viðlíka tökum á verðbólgu og raunin er annars staðar, að opinber fjármál fylgi fyrst og fremst hentistefnu þar sem langtímahugsun sé látin lönd og leið, að íslenska krónan sé ótemja sem ávallt muni reynast sveifluaukandi og að vextir á Íslandi muni til allrar framtíðar verða miklu hærri en gengur og gerist í þróuðum ríkjum. Víst er að efnahagsstjórnun fylgja ólíkar áskoranir þegar viðfangið er örsmátt hagkerfi með fremur fábreyttan útflutning, hátt hlutfall innflutnings í neyslu landsmanna og smæstu sjálfstætt fljótandi mynt í víðri veröld.

Undanfarinn áratug hefur hins vegar mikil breyting orðið til batnaðar á framkvæmd hagstjórnar hér á landi og fyrir vikið eru fyrrgreindar klisjur góðu heilli orðnar fjarri sanni. Fyrir vikið verður Kórónukreppan okkur mun léttbærari en ella.

Gott dæmi um aukinn trúverðugleika peningastefnu Seðlabankans birtist á dögunum þegar bankinn kynnti niðurstöður úr könnun á væntingum markaðsaðila. Þrátt fyrir að verðbólga hafi vaxið úr 1,7 prósenti í 3,6 prósent á nýliðnu ári er það yfirgnæfandi skoðun svarenda að verðbólga muni að jafnaði verða í takti við 2,5 prósenta verðbólgumarkmið bankans næsta áratuginn. Þar til fyrir um það bil tveimur árum síðan sveiflaðist þetta mat töluvert með skammtímaþróun verðbólgu. Síðustu misserin hefur það hins vegar verið stöðugt, þrátt fyrir að ýmislegt hafi gengið á í hagkerfinu. Það er ótvírætt styrkleikamerki og styrkir tök Seðlabankans á verðbólgunni mikið.

Nýlega birt Fjármálaáætlun fyrir árin 2021 til 2025 hljóðar upp á ríflega 900 milljarða króna aukningu á skuldum ríkissjóðs á tímabilinu. Þrátt fyrir hraða aukningu skulda er lánshæfi ríkissjóðs óskert og lánskjör hans á markaði hagstæðari en þau hafa lengst af verið í nútíma hagsögu landsins. Það er til marks um að innlendir sem erlendir aðilar hafa trú á að staðið verði við stóru orðin, skuldasöfnun stöðvuð á tímabilinu og ríkisreksturinn réttur af þegar til lengdar lætur.

Í þeim harða skelli sem á okkur dundi í fyrra og við erum enn að vinna okkur út úr hefur krónan reynst haukur í horni.

Skoðanir um krónuna hafa löngum verið skiptar og sá sem hér skrifar hefur raunar oft velt því fyrir sér hvort hinn meinti sveigjanleiki sem fljótandi örmynt færir hagkerfinu sé okkur of dýrkeyptur, í formi minni fyrirsjáanleika í rekstri fyrirtækja og heimila, kvikari verðbólgu og viðskiptakostnaðar af ýmsu tagi. Í þeim harða skelli sem á okkur dundi í fyrra og við erum enn að vinna okkur út úr hefur krónan þó reynst haukur í horni. Veiking hennar hefur farið nálægt þeim meðalvegi að vera nægileg til að veita hagkerfinu aukna viðspyrnu, án þess að þrýsta verðbólgu upp úr hófi. Vissulega hefur krónan þar notið liðsinnis Seðlabankans sem beitt hefur gjaldeyrisforða sínum af miklum móð til þess að draga úr sveiflum, auk þess sem þær skorður sem settar eru gjaldeyrisviðskiptum draga úr líkum á óhóflegum sveiflum. Því er þó vart að neita að krónuþróunin hefur mýkt hagsveifluna í þetta skiptið, öfugt við ýmis fyrri áföll í hagkerfinu.

Allt framantalið endurspeglast svo á endanum í þróun vaxtastigsins hér á landi. Árangursríkari peningastefna, trúverðugri hagstjórn og meiri stöðugleiki í gjaldmiðlinum er allt til þess fallið að þoka raunvaxtastiginu niður, líkt og þróunin hefur verið að undanförnu. Þótt raunvaxtastig á Íslandi verði væntanlega áfram heldur hærra en gerist og gengur í nágrannalöndunum endurspeglar það að töluverðum hluta betri hagvaxtarhorfur, lýðfræðilega þætti á borð við lægri meðalaldur og hraðari fólksfjölgun sem og hærra fjárfestingarstig en horfur eru á víða. Lögmál traustrar hagstjórnar virka góðu heilli hér á landi sem annars staðar og nýleg þróun færir okkur að mínu mati heim sanninn um það.

Höfundur er aðalhagfræðingur Íslandsbanka.