Ríkis­sjóður Ís­lands gaf í dag út skulda­bréf að fjár­hæð 500 milljónir evra, eða að jafn­virði um 71 milljarði króna en þetta kemur fram í til­kynningu til Kaup­hallarinnar í dag. Þar kemur fram að um sé að ræða skulda­bréf á hag­stæðustu vöxtum í sögu ís­lenska lýð­veldisins.

„Skulda­bréfin bera 0,1% fasta vexti og eru gefin út til 5 ára á á­vöxtunar­kröfunni 0,122%. Þetta eru hag­stæðustu vextir í sögu lýð­veldisins. Fjár­festar sýndu út­gáfunni mikinn á­huga og nam eftir­spurn um 2,5 milljörðum evra eða ríf­lega fimm­faldri fjár­hæð út­gáfunnar. Fjár­festa­hópurinn saman­stendur af seðla­bönkum og öðrum fag­fjár­festum, aðal­lega frá Evrópu. Um­sjón út­gáfunnar var í höndum Barcla­ys, JP Morgan, Morgan Stanl­ey og Nomura,“ að því er fram kemur í til­kynningu.

„Þessi út­gáfa er stað­festing á þeirri viður­kenningu og trausti á þeim árangri sem við höfum náð í ríkis­fjár­málum og stjórn efna­hags­mála á síðustu árum, en ríkis­sjóður hefur aldrei tekið lán á hag­stæðari vöxtum,“ segir Bjarni Bene­dikts­son fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra í til­kynningu frá fjár­mála­ráðu­neytinu.

Fjár­festar hafi tekið út­gáfunni vel og eftir­spurnin numið fimm­faldri fjár­hæð út­gáfunnar. „Út­gáfan nú er liður í að fram­fylgja lang­tíma­stefnu í lána­málum. Þetta er mikil­vægur þáttur í því að bæta markaðs­að­gengi inn­lendra aðila að er­lendum láns­fjár­mörkuðum til lengri tíma og að stórum og fjöl­breyttum hópi fjár­festa. Markaðs­að­stæður eru hag­stæðar um þessar mundir og það er á­nægju­legt að festa þessi hag­stæðu kjör til næstu fimm ára," segir Bjarni Bene­dikts­son.