Brýnt er að stjórn­völd bregðist við og tryggi rekstrar­grund­völl inn­lendrar
póst­þjónustu í því breyti­lega um­hverfi sem starfs­greinin býr við. Þetta er meðal þess sem fram kemur í skýrslu Ríkis­endur­skoðunar eftir út­tekt á starf­semi Ís­lands­pósts.

Fjórar til­lögur að úrbótum eru út­listaðar í út­tektinni sem á­kveðið var að ráðist yrði í í janúar á þessu ári. Ís­lands­póstur hefur glímt við fjár­hags­vanda að undan­förnu. Fyrir­tækið fékk síðasta haust 500 milljóna króna neyðar­lán frá ríkinu. Það dugði ekki til en í fjárlögum 2019 heimilaði Alþingi að endurlána mætti félaginu allt að 1,5 milljarða króna og leggja félaginu til aukið eigið fé gegn því að fyrirtækið myndi ráðast í endurskipulagningu á starfseminni. Tap fyrir­tækisins í fyrra nam 293 milljónum króna.

Í fyrstu til­lögunni bendir ríkisendur­skoðandi á þann mögu­leika í frum­varpi til nýrra heildar­laga um póst­þjónustu að gera þjónustu­samning við al­þjónustu­skylda aðila. Með fyrir­huguðu af­námi einka­réttar á hluta póst­þjónustu sé mikil­vægt að stjórn­völd stuðli að fyrir­sjáan­legu starfs­um­hverfi þeirra aðila sem nú starfa fyrir Ís­lands­póst.

Önnur til­lagan miðar að því að stjórn­völd ráðist í mótun sér­stakrar eig­anda­stefnu fyrir Ís­lands­póst vegna sí­breyti­legra að­stæðna og sér­tækra á­skorana í rekstrar­um­hverfi fé­lagsins. „Ríkis­endur­skoðandi telur ó­full­nægjandi að styðjast við al­menna eig­anda­stefnu ríkisins heldur þarf hún að vera sér­stök eigi fé­lagið á annað borð að vera á­fram starfandi í opin­berri eigu,“ segir í skýrslunni.

Þá þurfi að efla eftir­lit en ríkis­endur­skoðandi leggur á­herslu á að ráðu­neyti og eftir­lits­stofanir túlki eftir­lits­heimildir og -skyldur sínar gagn­vart Ís­lands­pósti með sama hætti og gagn­kvæmur skilningur sé á hlut­verki hvers og eins. „Mikil­vægt er að allir eftir­lits­aðilar stundi for­virkt eftir­lit út­frá sam­eigin­legri heildar­sýn,“ segir í skýrslunni.

Í fjórða og síðasta lagi er það mat ríkis­endur­skoðanda að full á­stæða sé til þess að hagræða verulega í starfsemi Ís­lands­pósts, einkum hvað varðar að sam­eina enn frekar dreifi­kerfi bréfa og pakka í þétt­býli.

Úttekt Ríkisendurskoðunar í heild.