Orkuveita Reykjavíkur hagnaðist um tæpa 6 milljarða króna á síðasta ári samanborið við 16 milljarða króna árið 2017. Veruleg minnkun á hagnaði er rakin til lækkunar álverðs í fréttatilkynningu um uppgjörið.

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur hefur samþykkt að greiða 1,5 milljarða króna arð til eigenda fyrirtæksins. Reykjavíkurborg á tæplega 94 prósenta hlut í Orkuveitunni og renna því rúmir 1,4 milljarðar í borgarsjóð.

Rekstrartekjur Orkuveitu Reykjavíkur jukust um 5,2 prósent frá árinu 2017 en rekstrarkostnaður jókst um 0,1 prósent. Rekstrarhagnaður óx milli áranna 2017 og 2018 um rúman einn milljarð króna.

Bjarni Bjarnason forstjóri segir að ytri skilyrði breytist án þess að Orkuveitan fái um það ráðið. Hins vegar hafi verið unnið markvisst að áhættuvörnum.

„Hér eftir sem hingað til munu viðskiptavinir njóta þess þegar vel tekst til með reksturinn. Samkvæmt ákvörðun þeirra sveitarfélaga sem eiga Orkuveitu Reykjavíkur munu viðskiptavinir njóta ábatans af rekstrinum og verð á margri okkar þjónustu hefur lækkað ítrekað eða staðið í stað síðustu misseri,“ er haft eftir Bjarna Bjarnasyni, forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur, í fréttatilkynningunni.

„Ef okkur lánast að viðhalda þeirri skörpu sýn sem við höfum haft á rekstrarútgjöldin verður sú þróun, að öðru jöfnu, viðvarandi.“