Hagnaður Icelandair Group árið 2017 var 37,7 milljónir Bandaríkjadala, eða tæplega 3,9 milljarðar króna eftir skatt. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu sem send var til kauphallar í dag. Dregið hefur töluvert úr hagnaði hjá félaginu á milli ára en hagnaðurinn eftir skatt árið 2016 var 89,1 milljón dala, eða rúmlega 9 milljarðar króna.

Þá kemur fram að hagnaður fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta (EBITDA) hafi verið 170 milljónir dala eða tæplega 17,5 milljarðar króna, samanborið við 219,8 milljónir dala árið 2016. EBITDA spá félagsins fyrir árið 2018 nemur 170-190 milljónum dala.

Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair, segir afkomuna vera í takt við spár. „Arðbær vöxtur félagsins heldur áfram og sterk fjárhagsstaða og sveigjanleiki gera okkur kleift að bregðast við aðstæðum og grípa ný og spennandi tækifæri á markaði. Icelandair flutti rúmlega fjórar milljónir farþega í millilandaflugi á árinu og hafa þeir aldrei verið fleiri.“

Taka við nýrri Boeing-vél

„Mikil samkeppni er á öllum okkar mörkuðum. Bókunarstaða í millilandaflugi er góð á fyrri árshelmingi en töluverð óvissa er á síðari hluta ársins, einkum hvað varðar þróun meðalfargjalda.“

Þá greinir hann frá því að félagið eigi von á afhendingu á fyrstu Boeing 737-MAX vél í sinn flota. „Það eru ákveðin tímamót, upphafið að endurnýjun flugflotans, sem er stórt og spennandi verkefni.“