Hagnaður lággjaldaflugfélagsins Wizz Air, sem flýgur meðal annars til Íslands, jókst um 4,5 prósent á milli ára í 300 milljónir evra á rekstrarárinu sem lauk hinn 31. mars.

Mörg önnur flugfélög hafa birt uppgjör að undanförnu sem hafa ollið vonbrigðum. Flugfélögin kenna hærra olíuverði um, óvissu í kringum útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og mikilli samkeppni. Þetta kemur fram í frétt Financial Times.

Forstjóri Wizz Air, Jozsef Varadi, reiknar með því að hagnaðurinn muni aukast í um 320-350 milljónir evra á rekstrarárinu 2019-2020. Flugfélagið telur að kostnaður muni aukast um tvö prósent og að tekjur á selda einingu muni aukast lítillega.

„Hærra eldsneytisverð styður við að verð á flugmiðum muni hækka. Við reiknum að þær aðstæður á markaði muni leiða til þess að Wizz Air geti aukið við markaðshlutdeild sína á sama tíma og flugfélög sem standa ekki eins traustum fótum muni draga sig úr flugleiðum sem ekki eru arðbærar,“ sagði Varadi.

Tekjur Wizz Air á síðasta rekstrarári jukust um 20 prósent á milli ára og námu 2,3 milljörðum evra. Það var lítillega undir spám greinenda.

Tekjur á hvern framboðinn sætiskílómetra, sem er mælikvarði sem horft er til í rekstri flugfélaga, jukust um 2,3 prósent en kostnaðurinn dróst saman um 0,9 prósent ef horft er fram hjá eldsneytisverði. Að teknu tilliti til þess jókst sá kostnaður um 4,9 prósent.