VÍS hagnaðist um 1.813 milljónir króna á fjórða ársfjórðungi ársins 2020 samanborið við 729 milljónir króna á sama tímabili 2019. Tap af vátryggingarekstri nam 804 milljónum króna á tímabilinu samanborið við 240 milljón króna hagnað á sama tíma fyrir ári. Samsett hlutfall tímabilsins var 115,3 prósent á fjórða ársfjórðungi 2020 samanborið við 97,4 prósent á sama tíma fyrir ári.

Tekjur af fjárfestingastarfsemi voru 2.724 milljónir króna á fjórða ársfjórðungi ársins 2020 en voru 987 milljónir króna á sama tímabili 2019.

Tæplega tveggja milljarða hagnaður 2020

VÍS hagnaðist um 1.798 milljónir króna árið 2020 í samanburði við 2.527 milljónir króna árið 2019. Samsett hlutfall fyrir árið 2020 var 109,8 prósent samanborið við 97,5 prósent árið áður. Fjárfestingatekjur ársins voru 5.284 milljónir króna samanburði við 3.551 milljón króna árið 2019.

Arðsemi eigin fjár var jákvæð um 12,0 prósent í samanburði við 17,2 prósent árið 2019.

Greiða 1,6 milljarða í arð og kaupa eigin bréf

Stjórn félagsins hefur samþykkt endurkaupaáætlun að fjárhæð allt að 500 milljónir króna með fyrirvara um samþykki Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands, og þá leggur stjórn til við aðalfund félagsins að samþykkt verði arðgreiðsla til hluthafa upp á rúmlega 1,6 milljarð króna.

Helgi Bjarnason, forstjóri VÍS.
Ljósmynd/Aðsend

„Árið 2020 var sérstakt fyrir margra hluta sakir,“ segir Helgi Bjarnason, forstjóri VÍS, í tilkynningu. „Undirliggjandi tryggingarekstur ársins var góður m.a. vegna áhrifa af kórónuveirufaraldrinum. Neikvæð matsþróun undanfarin ár leiddi til þess að aðferðafræði við tryggingafræðilega útreikninga á tjónaskuld var aðlöguð og endurskoðuð til að lágmarka neikvæða matsþróun til framtíðar.

Styrking tjónaskuldar, matsbreytingar og endurskoðuð aðferðafræði er stærsta ástæða þess að tjónaskuldin hækkaði um tæpa þrjá milljarða króna sem hafði veruleg áhrif á rekstrarniðurstöðu síðasta árs,“ segir hann.

Besti árangur í fjárfestingum frá skráningu félagsins

„Árangur í fjárfestingum á síðasta ári var sá besti frá skráningu félagsins. Fjárfestingatekjur ársins voru 5,3 milljarðar króna eða 14,0 prósent nafnávöxtun yfir tímabilið. Skráð hlutabréf skiluðu rúmlega 35 prósent ávöxtun á árinu. Erlend skuldabréf skiluðu góðri afkomu á fjórða ársfjórðungi, sem og árinu í heild en erlendar fjárfestingar telja nú um 10 prósent af heildarsafni félagsins. Þess ber að geta að þær eru gengisvarðar að fullu,“ segir Helgi.

Fjárfestingaeignir í lok ársins námu 41 milljarður króna. Um 37 prósent af safninu eru í hlutabréfum og þar af 27 prósent í skráðum innlendum hlutabréfum.