Vörður hagnaðist í fyrra um 1,8 milljarða króna sem er 46 prósent aukning á milli ára. Bætt afkoma skýrist helst af líf- og persónutryggingastarfseminni og vel heppnuðum fjárfestingum. Afkoman í skaðatryggingarekstrinum batnaði milli ára en var í járnum líkt og áður. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Arðsemi eiginfjár var 24 prósent á árinu 2019 samanborið við 19 prósent árið áður. Samsett hlutfall jókst í 93 en var 92 prósent árið 2018.

Iðgjöld ársins jukust um 9 prósent milli ára og námu 11,8 milljörðum króna, tjón jukust um sjö prósent á milli ára og námu 8,4 milljörðum króna. Tekjur af fjáreignum jukust um 72 prósent á milli ára og námu 1,5 milljörðum króna.

Guðmundur Jóhann Jónsson, forstjóri Varðar, segir í tilkynningunni að vöxtur og viðgangur félagsins hafi gengið vel eins og allar lykiltölur beri með sér. Þó séu ávallt áskoranir og viðfangsefni til að takast á við.

„Mikilvægast er að þær þrjár meginstoðir sem reksturinn byggir ár; skaðatryggingar, persónutryggingar og fjármálastarfsemi, skili að jafnaði jákvæðri afkomu. Afkoma af fjármálastarfsemi var einkar góð og reyndar vel umfram áætlanir sem gerðar voru fyrir árið. Það er jákvætt en engu að síður er mikilvægt að afkoma af tryggingastarfsemi, sjálfri kjarnastarfseminni, skili á hverjum tíma góðri niðurstöðu. Við erum á góðri vegferð og auðvitað stolt af árangrinum,“ segir hann.

Aðalfundur Varðar var haldinn á fimmtudaginn. Stjórn félagsins skipa þau Benedikt Olgeirsson, Guðný Benediktsdóttir, Iða Brá Benediktsdóttir, Katrín Olga Jóhannesdóttir og Ólafur Hrafn Höskuldsson.