Hagnaður Varðar trygginga, sem er í eigu Arion banka, jókst um tólf prósent á milli ára og nam 2.026 milljónir króna á árinu 2020. Hagnaður tryggingafélagsins hefur aldrei verið meiri. Arðsemi eiginfjár var 22 prósent á árinu 2020 og eiginfjárhlutfall var 31 prósent við lok síðasta árs. Samsett hlutfall hækkaði í 94,4 á árinu 2020 en var 93,5 prósent á árinu 2019.

Guðmundur Jóhann Jónsson, forstjóri tryggingafélagsins, segir að rekja megi góða afkomu til þess að ávöxtun af fjárfestingaeignum var góð og góðum árangri í persónutryggingastarfseminni.

Fjárfestingatekjur aukast um 22 prósent

Fram kemur í tilkynningu að fjárfestingatekjur hafi aukist um 22 prósent á milli ára og námu 1.891 milljón króna á árinu 2020. Iðgjöld jukust um fjögur prósent á milli ára og námu 12.283 milljónum króna.

Í tilkynningu segir að afkoma skaðatryggingarekstursins hafi verið jákvæð en versni milli ára og muni þar mest um verri afkomu í eignatryggingum. Afkoma ökutækjatrygginga sé neikvæð en batni milli ára og það sé viðvarandi og krefjandi verkefni að ná jafnvægi í afkomu þeirra.

„Efnahagssamdrátturinn sem kórónuveiran leiddi af sér breytti áður þekktu árstíðarmynstri í starfsemi félagsins. Ein birtingarmynd ástandsins voru færri tjón í helstu flokkum vátrygginga sem stafaði m.a. af samkomubanni, fólk vann heima og mikið dró úr umferð. Í maí var ákveðið að láta viðskiptavini félagsins, einstaklinga og fjölskyldur njóta ávinningsins sem af hlaust og voru tryggingar þann mánuðinn lækkaðar um þriðjung. Lækkunin nái til allra trygginga, s.s. ökutækja-, fasteigna-, innbús- og persónutrygginga og nam hún í heildina liðlega 260 milljónum króna. Viðskiptamenn kunnu vel að meta framlag félagsins inn í þær erfiðu aðstæður sem víða ríktu. Þegar ljóst var að landsmenn væru ekki að fara erlendis í orlof og hvattir til að ferðast innanlands fjölgaði ökutækjum á vegum landsins á ný með tilheyrandi tjónum,“ segir í tilkynningunni.