Hagnaður Útgerðarfélags Reykjavíkur (ÚR), stærsta eiganda Brims, nam tæplega 6,5 milljónum evra (949 milljónir króna) á síðasta ári. Töluverður samdráttur varð á hagnaði félagsins frá árinu 2019, þegar hagnaður af rekstri félagsins var 31,8 milljón evra (4.64 milljarðar króna).

Ásamt því að vera stærsti hluthafinn í Brimi hefur ÚR einn frystitogara í rekstri – Guðmund í Nesi. Aflaheimildir skipsin eru einkum í ufsa, karfa og gulllaxi. Verðmætasta aflahlutdeild Guðmundar í Nesi er þó grálúðan, en skipið er skráð fyrir um 20 prósent úthlutaðs aflamarks þeirrar tegundar.

Rekstrartekjur ÚR, sem rekja má til útgerðarstarfsemi félagsins, drógust saman um tæp 17 prósent á síðasta ári og voru 55 milljónir evra. Rekstrarkostnaður dróst einnig saman, sem bendir til þess að lönduðum afla félagsins hafi dregist saman milli ára. Kostnaðarverð seldra vara lækkar að sama skapi um 17 prósent í 49 milljónir evra.

Hins vegar vegar bætti ÚR við sig töluvert af aflaheimildum árið 2019, sem gæti bent til þess að félagið sé í auknum mæli að leigja frá sér aflaheimildir.

Síðasta ár í rekstri ÚR var litað af uppgjöri skuldar við slitabú Glitnis banka, en félagið tapaði dómsmáli við slitabúið í mars á síðasta ári vegna uppgjörs afleiðusamninga. Var félagið dæmt til að greiða um tvo milljarða króna auk dráttarvaxta, en skuldin var var gerð upp að fullu síðasta haust. Félagið hefur í auknum mæli fjármagnað sig með víxlaútgáfu frá því á síðasta ári, en langtímaskuldabréfaútgáfa er fyrirhuguð.

Aðaleigandi ÚR er Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims.