Afkoma sjávarútvegsfyrirtækisins Þorbjörns í Grindavík dróst saman um 68 prósent milli ára og nam um 2.44 milljónum evra, en sem samsvarar tæpum 359 milljónum króna. Rekstrartekjur drógust saman um ríflega 10 milljónir evra og námu um um 60,35 milljónum evra, eða sem nemur tæplega 8,9 milljörðum króna. Þetta kemur fram í uppgjöri samstæðu félagsins fyrir árið 2020.

Mælt í þorskígildistonnum er Þorbjörn fimmta stærsta útgerð landsins og heldur á 4,8 prósentum aflahlutdeildar.

Í skýrslu stjórnar fyrir síðasta starfsár kemur fram að vinnslur félagsins hafi verið lokaðar tveimur mánuðum lengur en vanalega. Tímanum hafi verið varið í að sameina vinnslur og uppfæra tækjabúnað. Í skýrslunni segir jafnframt: „Hefur ástand heimsmála ekki haft veruleg áhrif á fjármál og sölumál félagsins þó svo áhrif megi sjá að einhverju leyti í ársreikningnum.“

Rekstrarhagnaður fyrir skatta og fjármagnsliði (EBIT) var um 7,69 milljónir evra. Hlutfall EBIT-hagnaðar af rekstrartekjum var því um 12,7 prósent á síðasta ári, samanborið við 18,5 prósent á árinu 2019.

Á síðasta ári seldi Þorbjörni línuskipið Sturlu í niðurrif en keypti í staðinn 29 metra togara frá Vestmannaeyjum sem hlaut sama nafn. Rekstri frystiskipsins Gnúps var hætt, en síðasta ár var fyrsta heila rekstrarár frystitogarans Tómasar Þorvaldssonar sem Þorbjörn festi kaup á í maí árið 2019.

Tómas Þorvaldsson var keyptur nýr til Íslands árið 1992 af útgerðaryrirtækinu Skagstrendingi og hét þá Arnar. Það skip var hins vegar selt til Grænlands 1995 en gekk aftur til liðs við íslenska flotann árið 2019 eftir kaup Þorbjarnar.

Þorbjörn var stofnaður árið 1953 af fjórum sjómönnum. Árið 1975 keypti einn þeirra, Tómas Þorvaldsson, félaga sína út. Börn Tómasar, þau Eiríkur, Gunnar og Gerður Sigríður eiga nú tæplega 98 prósent hlutafjár Þorbjarnar.