Hagnaður Stoða, eins umsvifamesta fjárfestingafélags landsins, næstum tvöfaldaðist á milli ára í fyrra og nam hagnaðurinn samtals 7,56 milljörðum króna. Hagnaður félagsins kemur nær einvörðungu til vegna tekna af skráðum fjárfestingaverðbréfum sem voru um 7,46 milljarðar á árinu 2020.

Þetta kemur fram í nýbirtum ársreikningi Stoða en fjárfestingafélagið er stærsti hluthafinn í Símanum, fer með tæplega fimm prósenta hlut í Arion banka og var auk þess stærsti eigandi Kviku banka og tryggingafélagsins TM, sem sameinuðust í lok marsmánaðar. Hlutabréfaverð allra félaganna hækkaði mikið á liðnu ári í Kauphöllinni.

Þá komu Stoðir að fjármögnun Play fyrr í þessum mánuði, með því að leggja hinu verðandi flugfélagi til um 635 milljónir króna og eignuðust við það um 8,4 prósenta hlut.

Eigið fé Stoða nam tæplega 31,8 milljörðum króna í árslok 2020 og er félagið skuldlaust. Fjárfestingaeignir voru bókfærðar á 28,9 milljarða og þá nam handbært fé Stoða um 2,6 milljörðum.

Jón Sigurðsson, forstjóri og stjórnarmaður Stoða.

Fram kemur í skýrslu stjórnar að félagið hafi keypt eigin bréf upp á 481 milljón hluta að nafnvirði á síðasta ári, fyrir samtals 993 milljónir króna, nam hlutur Stoða í sjálfu sér rúmlega 6,1 prósenti í árslok. Stærsti eigandi Stoða er eignarhaldsfélagið S121 með 55,3 prósenta hlut, en þeir sem standa að því félagi eru meðal annars Jón Sigurðsson, forstjóri Stoða og stjórnarformaður Símans, Einar Örn Ólafsson, fyrrverandi forstjóri Skeljungs og stjórnarformaður Play, og Örvar Kjærnested, fjárfestir.

Aðrir helstu hluthafar Stoða eru TM, sem á 12,4 prósenta hlut, sjóðir í stýringu Stefnis, félagið Mótás og eignarhaldsfélagið Vindhamar.