Hagnaður Snaps jókst í 17,2 milljónir króna árið 2019. Árið áður tapaði veitingastaðurinn 344 þúsund krónum. Fram hefur komið í fjölmiðlum að það ár hafi afkoman litast talsvert af því að ábyrgð á leigu hjá Cafe Paris hafi verið gjaldfærð hjá Snaps fyrir 28 milljónir króna.

Velta Snaps dróst saman um átta prósent á milli ára og nam 558 milljónum króna árið 2019. Launakostnaður nam 54 prósentum af tekjum en var 46 prósent árið áður. Laun og launatengd gjöld jukust um sjö prósent á milli ára og námu 300 milljónum. Starfsmannafjöldi var óbreyttur á milli ára og var 60, samkvæmt ársreikningi 2019.

Arðsemi eiginfjár var 30 prósent á árinu 2019. Eigið fé var 66,1 milljón við lok árs og eiginfjárhlutfallið var 42 prósent.

Snaps er í eigu félags á vegum hjónanna Birgis Þórs Bieltvedt og Eyglóar Bjarkar Kjartansdóttur.

Fram kemur í ársreikningnum að velta veitingastaðarins hafi dregist saman um 35 prósent á fyrstu sjö mánuðum ársins 2020 vegna tímabundinnar lokunar á veitingastöðum, samkomutakmarkana og tveggja metra reglunnar. Stjórnendur hafi brugðist við þessum aðstæðum meðal annars með því að nýta sér úrræði stjórnvalda, eins og hægt sé og með hliðsjón af þeim, ágætri stöðu félagsins í árslok 2019 og hagræðingaraðgerðum telja stjórn og stjórnendur að félagið muni verða rekstrarhæft um fyrirsjáanlega framtíð.