Hagnaður Skeljungs jókst um sjö prósent á milli ára á fyrsta ársfjórðungi og nam 170 milljónum króna. Tekjur drógust saman um fjögur prósent á milli ára og námu 10,5 milljörðum króna á fjórðungnum. Arðsemi eiginfjár á ársgrundvelli var 7,1 prósent.

Skeljungur heldur afkomuspá sinni óbreyttri fyrir árið en stjórnendur áætla að EBITDA-hagnaður ársins verðir á 3-3,4 milljarðar króna.

Stjórn Skeljungs samþykkti á stjórnarfundi í dag að stofna félag utan um birgðastöð félagsins við Örfirisey, meðal annars með það að markmiði að skerpa línur í rekstri félagsins á Íslandi. Rekstrargrunnur félagsins mun byggjast á gegnumstreymisgjaldi eldsneytis, leigutekjum og fleira.

Skeljungur hefur ákveðið að fækka kynningarfundum með fjárfestum og verða því ekki haldnir fundir vegna árshlutareikninga fyrsta og þriðja ársfjórðungs 2021. Öðrum og fjórða ársfjórðungi verða gerð skil á kynningarfundum.

Afkoman litast af COVID-19

„Afkoma fyrsta ársfjórðungs litast af áhrifum heimsfaraldursins eins og undanfarnir ársfjórðungar hafa gert,“ segir Árni Pétur Jónsson, forstjóri Skeljungs, í tilkynningu til Kauphallarinnar.

„Undir lok fyrsta ársfjórðungs 2021 var liðið eitt ár frá því samkomutakmarkanir og ferðatakmarkanir gerðu vart við sig með neikvæðum áhrif á rekstur samstæðunnar. Við gripum til hagræðingaraðgerða á árinu 2020 sem var svo fylgt eftir með fleiri aðgerðum á fyrsta ársfjórðungi samhliða skipulagsbreytingum.

Einskiptisáhrif þeirra í rekstri eru 100 milljónir króna sem voru gjaldfærðar á fyrsta ársfjórðungi en munu skila sér í lækkun rekstrarkostnaðar á komandi ársfjórðungum. Það er ánægjulegt að sjá að rekstrarkostnaður samstæðunnar lækkaði um tæplega 10% milli ára að teknu tilliti til einskiptiskostnaðar,“ segir hann.

Árni Pétur segir að það hafi átt sér stað kröftug viðspyrna í færeysku efnahagslífi og horfur fyrir reksturinn á Íslandi séu góðar að því gefnu að áætlanir stjórnvalda í bóluefnamálum og opnun landsins gangi eftir.

„Í ljósi orkuskiptanna ætlum við okkur að minnka áhættu í hefðbundinni sölu eldsneytis sem kann að leiða til þess að félagið fjárfesti í einhverju ótengdu eldsneytissölu eða selji frá sér eitthvað sem tengist eldsneytissölu. Við höldum áfram að vinna með áherslur okkar sem við höfum sagt frá áður þ.e. að hagræða í rekstri, einfalda skipulag, skerpa á tekjueiningum og að nýta tækifæri til sóknar,“ segir hann.