Tekjur Skeljungs á þriðja ársfjórðungi féllu um 23 prósent á milli ára og námu 11,6 milljörðum króna. Hagnaður Skeljungs dróst saman um fjórðung á milli ára og var 470 milljónir á þriðja ársfjórðungi.

Hagnaður fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir lækkaði um 16 prósent á milli ára og nam 1.038 milljónum króna. EBITDA hlutfallið lækkaði í 39 prósent en var 51 prósent á sama tíma fyrir ári.

„Þriðji ársfjórðungur 2020 litaðist af áhrifum af COVID-19, eins og fyrri ársfjórðungar ársins,“ segir Árni Pétur Jónsson, forstjóri Skeljungs, í tilkynningu.

Mikill þróttur í verktakastarfsemi

„Það voru nokkur jákvæð atriði sem höfðu áhrif á afkomu okkar á tímabilinu s.s. að Íslendingar ferðuðust mikið um Ísland í sumar og það er mikill þróttur og metnaður í margvíslegri starfsemi hjá viðskiptavinum okkur s.s. verktakastarfsemi. Þessir þættir gerðu það m.a. að verkum að afkoman á Íslandi hélt ágætlega velli þrátt fyrir mun færri ferðamenn og minni umsvif í hagkerfinu.

Rekstur okkur í Færeyjum var mjög góður á þriðja ársfjórðungi 2020 og batnaði milli ára í dönskum krónum. Stoðirnar í færeysku efnahagslífi eru sterkar og kemur það sér vel fyrir rekstur okkar þar. Gengisveiking íslensku krónunnar gagnvart dönsku krónunni kemur samstæðunni til góða í rekstrinum.

Þá hefur verið gripið til ýmissa hagræðingaraðgerða í rekstrinum að undanförnu sem styður við afkomu og efnahag félagsins á tímabilinu. Fjárhagsstaða samstæðunnar er sterk sem og rekstrarlegar stoðir hennar sem gerir okkur kleift að takast á við krefjandi aðstæður í rekstrarumhverfinu.

Með hliðsjón af framangreindu erum við sátt við afkomu á þriðja ársfjórðungi 2020 og það sem af er ársins,“ segir hann