Hagnaður Sjóvar á þriðja ársfjórðungi var 1266 milljónir króna, sem er næstum því þreföldun frá sama tímabili í fyrra. Betri afkoma skýrist bæði af auknum hagnaði tryggingastarfsemi en einna helst af miklum viðsnúningi í fjárfestingastarfsemi félagsins. Hagnaður af tryggingastarfsemi fyrir skatta jókst um 14 prósent og var 988 milljónir. Afkoma fjárfestingastarfsemi hljóðaði upp á 572 milljóna króna hagnað, samaborið við 224 milljóna tap á þriðja fjórðungi í fyrra. 

Stjórn Sjóvár hyggst boða til hluthafafundar síðar í þessum mánuði þar sem lagt verður til að enginn arður verði greiddur út árið 2020 vegna afkomu ársins 2019.

Samsett hlutfall tryggingafélagsins Sjóvár var 83,2 prósent á þriðja ársfjórðungi, að því er kom fram í árshlutauppgjöri félagsins rétt í þessu. Samsett hlut­fall sýnir iðgjalda ann­ars vegar og út­gjalda vegna vá­trygg­inga hins vegar, en sé hlutfallið undir 100 prósent er hagnaður á vátryggingarekstrinum. Á fyrstu níu mánuðum ársins var samsett hlutfall Sjóvár 92,5 prósent, sem er litlu hærra en á sama tímabili á síðasta ári. 

“Afar ánægjuleg niðurstaða á þriðja ársfjórðungi endurspeglar sterkan rekstur Sjóvár. Hagnaður var góður af bæði vátryggingastarfsemi og fjárfestingastarfsemi en afkoma af vátryggingastarfsemi stendur á bak við tvo þriðju hluta af afkomu þriðja ársfjórðungs og um helming afkomunnar ef litið er til fyrstu níu mánaða ársins. Það verður að teljast gríðarlega sterkt þegar haft er í huga að Sjóvá, eitt tryggingafélaga, felldi í heild sinni niður bifreiðaiðgjöld einstaklinga í maí á þessu ári. Nam sú niðurfelling 650 milljónir króna. Það er ánægjulegt að sjá að vöxtur eigin iðgjalda á þriðja ársfjórðungi er rúmlega 3% frá fyrra ári og iðgjöld standa nánast í stað á fyrstu níu mánuði ársins við krefjandi aðstæður. Iðgjaldavöxtur á einstaklingssviði, þrátt fyrir fyrrgreinda niðurfellingu, vegur upp á móti samdrætti í iðgjöldum á fyrirtækjasviði sem skýrist einna helst af minnkandi umsvifum íslenskrar ferðaþjónustu í kjölfar útbreiðslu Covid-19,” er haft eftir forstjóranum Hermanni Björnssyni í fréttatilkynningu.