Hagnaður Sjóvár nam 808 milljónum króna á fjórða fjórðungi síðasta árs og meira en tvöfaldaðist frá sama tímabili árið áður þegar hann var 392 milljónir króna. Samsett hlutfall tryggingafélagsins var 99 prósent á fjórðungnum og hækkaði um tvö og hálft prósentustig á milli ára.

Sjóvá birti uppgjör fyrir fjórða fjórðung síðasta árs eftir lokun markaða í dag. Samkvæmt því var hagnaður félagsins af vátryggingastarfsemi 324 milljónir króna fyrir skatta á tímabilinu borið saman við 480 milljónir króna á sama tíma árið 2018.

Hagnaður af fjárfestingarstarfsemi var 504 milljónir króna á síðustu þremur mánuðum ársins 2019 en til samanburðar var hann sex milljónir króna á sama tímabili árið áður. Var ávöxtun fjárfestingarsafns félagsins 2,1 prósent á fjórðungnum.

Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvár, segir í afkomutilkynningu félagsins að afar árangursríkt og ánægjulegt ár sé að baki.

„Rekstur félagsins var góður en þar munar mestu um mikinn viðsnúning í afkomu af fjárfestingum þar sem sveiflur á milli ára nema um þremur milljörðum. Fjölgun viðskiptavina á síðasta ári undirbyggir vöxt í iðgjöldum og þar með góða niðurstöðu í samsettu hlutfalli sem var í lok árs 95,1 prósent,“ nefnir hann.

Hermann bendir einnig á að ávöxtun eignasafns félagsins hafi verið góð á fjórða ársfjórðungi og skýrist af góðri afkomu skráðra hlutabréfa. Afkoma af skuldabréfum hafi verið undir væntingum ásamt því að áfram hafi óskráð hlutabréf verið færð niður á fjórðungnum. Á árinu í heild hafi ávöxtun eignasafnsins hins vegar verið yfir væntingum, bæði af skráðum hlutabréfum og skuldabréfum.

Horfur stjórnenda Sjóvár fyrir árið 2020 gera ráð fyrir að samsett hlutfall verði um 95 prósent og að hagnaður fyrir skatta verði um 3.400 milljónir króna.