Hagnaður Símans jókst um 13 prósent á milli ára og nam 1.014 milljónum króna á þriðja ársfjórðungi. Tekjur jukust um tvö prósent á milli ára og voru 7.225 milljónir króna.

„Rekstur samstæðunnar er í vel ásættanlegum gangi um þessar mundir,“ segir Orri Hauksson, forstjóri Símans, í tilkynningu.

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) jókst um 4,1 prósent á milli ára og nam 2.933 milljónum króna á fjórðungnum. EBITDA hlutfallið var 40,6 prósent á ársársfjórðungnum en var 39,7 prósent á sama tíma fyrir ári.

„Tekjur af erlendum ferðamönnum eru lítið brot af því sem var á fyrra ári, en tekjustraumar samstæðunnar innanlands fá fyrirsjáanlega og að ýmsu leyti hagfellda framvindu á fjórðunginum. Þannig vaxa stafræn afþreying og búnaðarsala umtalsvert milli ára. Tekjur af upplýsingatækni og gagnatengingum vaxa einnig lítillega milli þriðju fjórðunga áranna tveggja, en innlend farsímaþjónusta stendur í stað og talsímaþjónusta dregst saman sem fyrr. Erfitt efnahagsástand hefur enn ekki valdið verulegum vanskilum viðskiptavina samstæðunnar,“ segir Orri.

Hann bendir á að kostnaður vegna lögfræði og málarekstrar hafi verið hár á þriðja fjórðungi ársins, en ferðakostnaður, laun og útgjöld vegna ýmissa hefðbundinna umsvifa í rekstrinum dragist saman, meðal annars vegna aukinnar fjarvinnu og samkomutakmarkana.

Starfsmönnum móðurfélagsins hefur fækkað um tæplega 50 á árinu, vegna áframhaldandi útvistunar verkefna og aukinnar sjálfvirkni í starfseminni.