Hagnaður Símans var 1.055 milljónir króna á fjórða ársfjórðungi 2020 samanborið við 760 milljónir króna á sama tímabili árið 2019.

Tekjur jukust um 3,7 prósent á milli ára og námu 8,2 milljörðum króna á fjórða ársfjórðungi.

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) nam 2.894 milljónum á ársfjórðungnum og jókst um 6,1 prósent frá sama tímabili í fyrra.

Á ársfjórðungnum voru bakfærðar 300 milljónir vegna lækkunar á stjórnvaldssekt í kjölfar úrskurðar áfrýjunarnefndar samkeppnismála frá 13. janúar síðastliðinn. Áður hafði Síminn gjaldfært 500 milljónir króna á öðrum ársfjórðungi ársins.

Fjármögnun Mílu langt komin

„Samstæðan er langt komin með að breyta fjármögnun sinni með þeim hætti að Míla mun sækja eigið lánsfjármagn. Vinna við þá fjármögnun Mílu frá Íslandsbanka er á lokametrunum. Móðurfélagið er samhliða að ganga frá endurfjármögnun lána sinna hjá Arion banka. Í kjölfarið verður hvort félag með sína eigin ytri fjármögnun og því engin lán á milli félaganna, en móðurfélagið hefur um árabil séð um alla fjármögnun samstæðunnar. Við breytingu á fjármagnsskipan innan samstæðunnar og með sölu á Sensa losnar um fé sem ekki nýtist í reglulegum rekstri. Er því ráðgert að koma þeim fjármunum í hendur hluthafa í kjölfar aðalfundar,“ segir Orri Hauksson, forstjóri Símans, í tilkynningu til Kauphallarinnar.

„Ásamt breyttri verkaskiptingu er þessi nýja fjármangsskipan liður í því að aðgreina betur þau ólíku viðskiptamódel sem rekin eru innan samstæðunnar. Þannig mun Míla sinna innviðum og netrekstri í heildsölu en Síminn inna af hendi þjónustu til endaviðskiptavina. Míla er nú orðið stærra og sjálfstæðara félag en fyrr, sem sinnir á jafnræðisgrundvelli og á sömu einingaverðunum öllum þjónustuveitendum landsins í fjarskiptum og öðrum viðskiptavinum sínum,“ segir hann.