Reginn hagnaðist um 970 milljónir króna á fjórða fjórðungi síðasta árs, samkvæmt ársreikningi fasteignafélagsins sem birtur var síðdegis í dag. Rekstrartekjur félagsins voru 2.566 milljónir króna á fjórðungnum og jukust um fimm prósent frá sama tímabili árið 2018.

Rekstrarhagnaður Regins fyrir matsbreytingu og afskriftir var 1.712 milljónir króna á síðustu þremur mánuðum síðasta árs en alls var matsbreyting fjárfestingareigna jákvæð um 822 milljónir króna á tímabilinu.

Heildarhagnaður Regins nam 4.486 milljónum króna á síðasta ári, eftir því sem fram kemur í afkomutilkynningu félagsins, og jukust leigutekjur þess um tuttugu prósent frá fyrra ári.

Bókfært virði fjárfestingareigna fasteignafélagsins var 140.746 milljónir króna í lok síðasta árs borið saman við 128.748 milljónir króna í árslok 2018. Matsbreyting á síðasta ári nam samanlagt 4.089 milljónum króna.

Í afkomutilkynningu Regins er rakið að mikill og góður árangur hafi náðst í rekstri félagsins. Þá hafi öflun nýrra leigutaka gengið vel.

Það er ljóst að vel grunduð og farsæl fjárfestingastefna síðustu ára er að skila sér sterkt inn í afkomu félagsins. Mikil áhersla hefur verið lögð á að nýta stærðarhagkvæmni innan félagsins og ná þannig fram hagræðingu og auknum árangri. Stjórnendur félagsins telja að horfur í rekstri séu góðar. Nýting eigna er góð sem og eftirspurn,“ segir í afkomutilkynningu Regins.

Reginn festi kaup á turninum við Höfðatorg síðla árs 2018.
Fréttablaðið/Vihelm

Í samræmi við arðgreiðslustefnu félagsins leggur stjórn til að verðmætum sem nema um þriðjungi af hagnaði ársins, samtals 1.502 milljónum króna, verði ráðstafað til hluthafa vegna síðasta árs. Þegar hafa verið keypt eigin bréf fyrir 967 milljónir króna og því er lagt til að greiddur verði arður að fjárhæð 0,30 krónur fyrir hverja krónu nafnverðs útistandandi hlutafjár, samtals 535 milljónir króna, til hluthafa á árinu 2020.