Hagnaður fasteignafélaganna Krókháls 13 og Krókháls 11, þar sem starfsemi Öskju fer fram, var á sama tíma rúmar 180 milljónir. Fasteignafélögin eru í eigu sömu aðila og eiga Öskju. Samanlagður hagnaður Öskju og tengdra fasteignafélaga var því um 936 milljónir eftir skatta.

„Starfsemi Öskju gekk vel á árinu 2021. Síðustu ár hafa farið í að byggja upp innviði og ferla í tengslum við góðan árangur í sölu á nýjum fólks- og atvinnubílum, en hlutdeild Öskju á markaði hefur verið vaxandi síðastliðin ár. Við höfum byggt upp starfsemina á Krókhálsi, þar sem Kia, Honda og Mercedes-Benz eru til húsa. Fyrir rúmu ári tókum við þátt í kaupum á Krókhálsi 7 en þar eigum við helming af 24.000 fermetra lóð sem er á gatnamótum Suður- og Vesturlandsvegar og mun á næstu árum verða ein af miðstöðvum sölu notaðra bíla.

Markaðshlutdeild Öskju á árinu 2021 var sú hæsta frá upphafi en hún var 19,3 prósent í sölu fólksbíla og var Askja því annað stærsta umboðið á þeim markaði. Kia var jafnframt söluhæsta bíltegundin í flokki fólksbíla og um leið söluhæsta merkið á Íslandi þegar horft er til samanlagðrar sölu raf- tengiltvinn- og hybrid bíla. Á næsta ári bætum við rafbílamerkinu Smart, sem er að hluta í eigu Mercedes-Benz, í okkar vöruframboð og höfum við mikla trú á þeim bílum,“ segir Jón Trausti Ólafsson, framkvæmdastjóri Öskju.

„Við höfum undanfarin ár tekið þátt í og verið leiðandi í orkuskiptum með því að leggja mikla áherslu á rafbílavæðinguna í samvinnu við okkar framleiðendur. Sú vegferð hefur verið lykilþáttur í okkar árangri og um leið sú áhersla okkar á að byggja upp sterka aðstöðu fyrir viðskiptavini, starfsmenn og vörumerki félagsins. Við höfum því nánast lokið þeirri uppbyggingu sem við lögðum í árið 2018 með byggingu nýrrar aðstöðu á Krókhálsi og árangurinn hefur skilað sér í rekstrinum og stöðu okkar vörumerkja á markaðinum.

Mercedes-Benz er mest seldi þýski lúxusfólksbílinn á Íslandi, Kia söluhæsta fólksbílamerkið og Honda er framleiðandi sem við trúum að muni koma mjög sterkur inn á komandi árum. Þá hefur sala okkar á atvinnubílum gengið vel. Á árinu 2021 keypti Askja hlut í Sleggjunni sem mun einbeita sér að þjónustu við vöru- og stærri fólksflutningabifreiðar. Við ætlum þar að hafa sterkan fókus á sérhæfða þjónustu fyrir atvinnubíla,“ segir Jón Trausti.

„Framtíðarhorfur Öskju eru jákvæðar. Við höfum fjárfest í starfsfólki, ferlum og góðu húsnæði með mikla afkastagetu í þjónustu. Framtíðarsýn okkar vörumerkja með tilliti til orkuskipta hentar afar vel fyrir okkar markað og hve langt þau eru raunverulega komin í dag með framleiðslu raf- og tengiltvinnbíla, er lykilatriði. Við munum í lok árs 2027 bjóða vel yfir 40 tegundir hreinna rafbíla frá okkar framleiðendum og að minnsta kosti 10 mismunandi gerðir 10 sendi- og fólksflutningabíla. – Það eru fá umboð hér á landi með slíka breidd í boði.“ segir Jón Trausti að lokum.