Hagnaður Orkusölunnar nam tæpum 850 milljónum króna á síðasta ári, sem er um þriðjungsaukning frá síðasta ári. Velta dróst saman um um það bil fimm prósent og var ríflega 5,7 milljarðar króna, en þetta kemur fram í ársreikningi félagsins fyrir árið 2020.

Orkusalan er dótturfyrirtæki RARIK, en félagið rekur fimm vatnsaflsvirkjanir og starfar á smásölumarkaði með rafmagn. Virkjanir félagsins eru með samanlagt uppsett afl upp á ríflega 37 megavött. Stærst þeirra er Lagarfossvirkjun sem hefur 27,2 megavatta uppsett afl.

Orkusalan framleiðir um fjórðung þess rafmagns sem fyrirtækið selur.

Fram kemur í skýringum með ársreikningnum að tekjutap síðasta árs hafi skýrst af stærstum hluta af harðnandi samkeppni á raforkumarkaði vegna meira framboðs á raforkumarkaði. „Á móti lækkuðu orkukaup um 6,4 prósent. Covid-19 heimsfaraldurinn hafði að mati stjórnenda einhver en ekki veruleg áhrif á árinu á smásölumarkað raforku og innheimta krafna hefur ekki versnað til muna,“ segir í skýrslu stjórnar.