Landsbréf, sjóðastýringarfélag í eigu Landsbankans, högnuðust um alls 489 milljónir króna á síðasta ári samkvæmt nýbirtum ársreikningi félagsins. Eignir í stýringu námu rúmum 180 milljörðum króna í lok ársins borið saman við tæpa 155 milljarða króna í ársbyrjun.

Hagnaður Landsbréfa dróst saman frá árinu 2018, þegar hann nam um 844 milljónum króna, en í ársreikningum segir að meginbreytingin helgist af því að vægi árangurstengdra þóknana af rekstri framtakssjóða hafi verið mun minna á síðasta ári en árið áður. Slíkar þóknanir geti eðli máls samkvæmt verið breytilegar á milli ára.

Hreinar rekstrartekjur sjóðastýringarfélagsins námu 1.683 milljónum króna á síðasta ári og þá voru rekstrargjöld þess tæplega 1.071 milljón króna.

Landsbréf áttu eigið fé upp á liðlega 4.291 milljón króna í lok síðasta árs borið saman við 4.006 milljóna króna eigið fé í árslok 2018.

Í ársreikningnum er jafnframt tekið fram að sjóðir Landsbréfa muni ekki fara varhluta af áhrifum kórónaveirunnar. Faraldurinn hafi áhrif á ávöxtun á öllum mörkuðum heimsins og þar af leiðandi geti sveiflur í ávöxtun sjóða félagsins orðið óvenjumiklar á þessu ári.

„Fjárhagsleg áhrif á rekstur Landsbréfa verða einhver þar sem búast má við að samdráttur verði í tekjum félagsins á árinu og að ávöxtun eignasafns geti orðið neikvæð. Félagið stendur eftir sem áður mjög vel og tekjugrundvöllur þess er traustur,“ segir í skýrslu stjórnar og framkvæmdastjóra í ársreikningnum.

Haft er eftir Helga Þór Arasyni, framkvæmdastjóra Landsbréfa, í afkomutilkynningu að ávöxtun sjóða félagsins hafi almennt verið mjög góð í fyrra. Jafnframt sé ánægjulegt að sjá þann fjölda fólks og fyrirtækja sem treysti Landsbréfum til þess að ávaxta fjármuni sína en í lok síðasta árs voru um þrettán þúsund einstaklingar og lögaðilar sem áttu hluti í sjóðum félagsins.

„Það hlutverk taka Landsbréf alvarlega og munum við halda áfram að leggja metnað okkar í að ávaxta fjármuni viðskiptavina okkar á ábyrgan hátt. Jafnframt munum við hlusta eftir þörfum fjárfesta og endurspegla það í fjölbreyttu sjóðaframboði félagsins en þar má sem fyrr finna fjárfestingakosti sem mæta þörfum flestra fjárfesta,“ segir Helgi Þór.