Hagnaður Landsbankans á þriðja ársfjórðungi nam 7,5 milljörðum samanborið við fjóra milljarða á sama tíma fyrir ári.

Virðisbreyting útlána og krafna var jákvæð um einn milljarð króna á fjórðungnum en var neikvæð um 120 milljónir króna á sama tíma fyrir ári 2020.

„Afkoma bankans á þriðja ársfjórðungi og á árinu endurspeglar annars vegar góðan árangur í rekstri og starfsemi bankans og hins vegar betri stöðu í hagkerfinu. Tekjur hafa aukist og fleiri einstaklingar, fyrirtæki og fagfjárfestar beina nú viðskiptum sínum til bankans og umsvif þeirra eru meiri en áður. Um leið hefur okkur tekist að halda rekstrarkostnaði í skefjum og hlutfall kostnaðar af tekjum er með því lægsta sem þekkist hjá bönkum í Evrópu. Þar sem efnahagslegar afleiðingar heimsfaraldursins voru vægari en gert var ráð fyrir eru jákvæðar virðisbreytingar stór þáttur í góðri afkomu bankans í ár,“ segir Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, í tilkynningu.

Arðsemi eiginfjár var ellefu prósent á þriðja ársfjórðungi samanborið við 6,5 prósent á sama ársfjórðungi árið á undan.

Hreinar þjónustutekjur námu 2,5 milljörðum króna á þriðja ársfjórðungi en voru 2,1 milljarður króna á sama tíma í fyrra.

Vaxtamunur í hlutfalli af meðalstöðu eigna var 2,3 prósent á þriðja ársfjórðungi en var 2,4 prósent á sama tímabili fyrir ári.

Kostnaður sem hlutfall af tekjum á þriðja ársfjórðungi var 37,9 prósent samanborið við 46,6 prósent á sama ársfjórðungi árið á undan.

Stöðugildi hjá Landsbankanum þann 30. september 2021 voru 837 en voru 884 á sama tíma fyrir ári.

Eiginfjárhlutfall bankans (e. total capital ratio) þann 30. september 2021 var 24,9 prósent samanborið við 24,7 prósent í lok september 2020. Það er verulega umfram 18,9 prósent eiginfjárviðmið Fjármálaeftirlits Seðlabankans, segir í tilkynningunni.