Samanlagður hagnaður Kviku banka, TM og Lykils fjármögnunar fyrir skatta nam 2.520 milljónum króna á fyrsta ársfjórðungi. Samruninn átti sér stað í lok mars og er rekstur TM og Lykils fjármögnunar því ekki hluti af árshlutareikningi samstæðu Kviku.

Arðsemi vegins efnislegs eigin fjár fyrir skatta var 26,7 prósent.

„Vel gengur að ná fram þeirri samlegð sem kynnt hefur verið vegna samruna félaganna og er hún framar vonum þótt of snemmt sé að segja til um hvort breyting verði á heildarniðurstöðunni. Frekari innsýn í þróun samlegðar verður gefin við birtingu uppgjöra,“ segir í tilkynningu til Kauphallarinnar.

„Samstæðan er fjárhagslega sterk með góðan rekstur sem hvílir á mörgum stoðum. Mikil tækifæri felast í því að auka markaðshlutdeild félagsins. Það er ekki algengt að fjárhagslega sterkt félag hafi litla markaðshlutdeild í flestum þjónustuþáttum og í því felast margvísleg tækifæri til vaxtar. Unnið er að undirbúningi útvíkkunar þjónustu fyrir einstaklinga og ég vænti þess að viðskiptavinir félagsins muni upplifa að samkeppni aukist á fjármálamarkaði,“ segir Marinó Örn Tryggvason, forstjóri Kviku.

Eigið fé samstæðunnar nam 70 milljörðum króna. Gjaldþolshlutfall fjármálasamsteypunnar var 1,33 og eiginfjárhlutfall samstæðunnar (CAR) var 29,3 prósent í lok tímabilsins.

Heildareignir í stýringu námu 546 milljörðum króna.

Eftir samruna er heildafjöldi starfsmanna í fullu starfi 319.

Hreinar vaxtatekjur Kviku banka námu 634 milljónum króna og jukust um 31 prósent miðað við sama tímabil árið áður og má aukningu vaxtatekna helst skýra með breyttri samsetningu útlánasafns og lausafjáreigna ásamt hagfelldri þróun fjármagnskostnaðar.

Lág vanskil voru meðal lántakenda bankans og nam hrein virðisrýrnun einungis ellefu milljónum króna og virðast áhrif COVID-19 faraldursins að mestu komin fram. Hreinar fjárfestingatekjur námu 373 milljónum króna en góð ávöxtun var á flestum þeim eignamörkuðum sem bankinn starfar á. Þóknanatekjur voru áfram sterkar og námu hreinar þóknanatekjur 1.684 milljónum króna.

Rekstur TM og Lykils fjármögnunar gekk vel á ársfjórðungnum og námu hreinar tekjur félaganna 2.973 milljónum króna. Rekstrarkostnaður lækkaði um sex prósent frá ársfjórðungnum árið áður. Fjárfestingartekjur námu 1.663 milljónum króna á tímabilinu og ávöxtun eignasafnsins því 5,6 prósent á tímabilinu. Samsett hlutfall vátryggingarekstrar nam 102,5 prósent sem var í samræmi við væntingar þrátt fyrir stór tjón á tímabilinu.