Hagnaður Festar, sem rekur meðal annars Krónuna og N1, dróst saman um 26 prósent á milli ára og nam 526 milljónum króna á fjórða ársfjórðungi.

Hagnaður Krónunnar jókst um 69 prósent á milli ára og nam 318 milljónum á fjórða ársfjórðungi. N1 tapaði 250 milljónum króna á tímabilinu samanborið við 200 milljón króna hagnað fyrir ári.

Tekjur Festar af vöru og þjónustusölu jukust um 9,1 prósent á milli ára og námu 21,3 milljörðum króna á fjórða ársfjórðungi. Tekjur Krónunnar jukust um 32 prósent á milli ára og námu 12,1 milljarði á ársfjórðungnum. Tekjur N1 drógust saman um 18 prósent á milli tímabila og námu 7,4 milljónum króna.

Tekjur Elko jukust um 21 prósent

Tekjur Elko jukust um 21 prósent á milli ára og námu 4,2 milljörðum króna. Samkomubann hafði góð áhrif á sölu því fleiri unnu heima hjá sér. Hagnaður Elko dróst saman um tvö prósent og nam 195 milljónum króna á fjórða ársfjórðungi.

„Rekstur Festi samstæðunnar á árinu 2020 gekk vel þrátt fyrir mjög krefjandi aðstæður þar sem samkomubönn og sóttvarnarráðstafanir höfðu mikil áhrif á öll dótturfélögin,“ segir Eggert Þór Kristófersson, forstjóri Festar, í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Eggert Þór Kristófersson, forstjóri Festar.
Fréttablaðið/Valli

„N1 fann mikið fyrir minni umferð og algjöru hruni í ferðaþjónustunni en þá kom sér vel að þjónustusvæði félagsins er sterkt um allt land og í öllum atvinnugreinum. Kappkostað var að veita viðskiptavinum framúrskarandi þjónustu á öllum sviðum og enn eitt árið jukust umsvif bílaþjónustu félagsins. ELKO átti sitt besta ár frá upphafi þrátt fyrir að næststærsta verslun félagsins í Leifsstöð væri nánast lokuð í 10 mánuði árið 2020. Þessa velgengni má meðal annars þakka sterkum innviðum vefverslunar ELKO. Festi er einnig stór hluthafi í Dropp sem er í samstarfi við ELKO um afhendingu á vörum á sautján N1 þjónustustöðvum um landið og hefur það hjálpað okkur að tryggja betri þjónustu fyrir viðskiptavini í COVID19 faraldrinum.

Umsvif Krónunnar jukust á árinu og var velta félagsins sú mesta frá upphafi. Þar kom einnig Snjallverslun Krónunnar til sögunnar sem er snjallforrit sem viðskiptavinir geta nýtt sér vilji þeir gera innkaupin á netinu og fá sent heim. Krónan opnaði þrjár nýjar verslanir á árinu, ELKO og N1 opnuðu nýjar verslanir á Akureyri sem hafa allar hlotið góðar viðtökur.“