Hagnaður Íslandshótela, sem eiga og reka sautján hótel um allt land, nam ríflega 1,1 milljarði króna á síðasta ári og dróst saman um meira en fimmtung frá fyrra ári þegar hann var um 1,4 milljarðar króna.

Hótelkeðjan segist munu nýta sér úrræði ríkisstjórnarinnar til þess að bregðast við áhrifum kórónaveirunnar auk þess sem hún hafi tryggt sér fyrirgreiðslu hjá viðskiptabanka sínum til þess að mæta útgjöldum næstu mánaða.

Samkvæmt ársreikningi Íslandshótela námu rekstrartekjur hótelkeðjunnar samanlagt 11,5 milljörðum króna á síðasta ári borið saman við 12,1 milljarð króna árið 2018. Var tekjusamdrátturinn þannig tæplega fimm prósentum.

Rekstrargjöld Íslandshótela voru alls tæplega 8,2 milljarðar króna á síðasta ári, samanborið við 8,7 milljarða króna árið 2018, en þar af námu laun og launatengd gjöld ríflega 5,0 milljörðum króna.

Á árinu störfuðu 705 manns hjá Íslandshótelum miðað við heilsársstörf.

EBITDA hótelkeðjunnar - afkoma fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta - var jákvæð um 3,3 milljarða króna í fyrra en hún var jákvæð um tæpa 3,4 milljarða króna árið áður.

Íslandshótel áttu eignir upp á samanlagt 50,4 milljarða króna í lok síðasta árs borið saman við 39,6 milljarða króna eignir í árslok 2018. Eigið fé keðjunnar var 19,1 milljarður króna við síðustu áramót en 16,8 milljarðar króna í lok árs 2018.

Stjórn hótelkeðjunnar leggur til að ekki verði greiddur arður til hluthafa í ár.

Tryggt sér lánalínu

Í skýrslu stjórnar sem fylgir ársreikningum kemur fram að ekki sé hægt að greina endanleg áhrif kórónafaraldursins á rekstur Íslandshótela á meðan óvissa ríki um hversu lengi ástandið varir.

„Félagið fylgist náið með þróun mála og vinnur að mótvægisaðgerðum í rekstri félagsins. Meðal annars mun félagið nýta sér úrræði ríkisstjórnarinnar sem lögð hafa verið frum í frumvarpi til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru, auk þess sem félagið hefur tryggt sér lánalínu hjá viðskiptabanka sínum.

Davíð Torfi Ólafsson, framkvæmdastjóri Íslandshótela.

Stjórn telur félagið vel í stakk búið til að takast á við óvissuna. Eiginfjár- og lausafjárstaða Íslandshótela er sterk og skuldsetning félagsins vel innan lánaskilmála um áramótin,“ segir jafnframt í skýrslu stjórnar.

Íslandshótel eiga og reka sautján hótel með yfir 1.800 gistirými út um allt land auk funda- og ráðstefnuaðstöðu. Um er að ræða Grand Hótel Reykjavík sem er stærsta ráðstefnuhótel landsins, Hótel Reykjavík Centrum og fimmtán Fosshótel hringinn í kringum landið. Auk þess er nýtt fjögurra stjörnu hótel í byggingu við Lækjargötu sem er fyrirhugað að opni árið 2021.