Hagnaður af rekstri Íslandsbanka nam 5,2 milljarða á fyrsta ársfjórðungi en á sama tímabili í fyrra nam hagnaður 3,6 milljörðum Arðsemi eigin fjár var 10,2 prósent miðað við heilt ár en var 7,7 prósent á sama tíma í fyrra. Þetta er yfir fjárhagslegum markmiðum bankans og spám greiningaraðila. Helstu ástæður góðrar afkomu eru sterk tekjumyndun, aðhald í rekstri og jákvæð virðisbreyting útlána, segir í tilkynningu frá Íslandsbanka.

Hreinar vaxtatekjur jukust um 12,4 prósent á milli ára og námu 9,2 milljörðum á fyrsta ársfjórðungi 2022 samanborið við 8,2 milljarða í fyrra. Hækkunin á milli ára skýrist af stækkun lánasafns bankans og hærra vaxtaumhverfis. Vaxtamunur nam 2,6 prósent á ársfjórðungnum samanborið við 2,4 prósent á sama tímabili í fyrra.

Hreinar þóknanatekjur jukust um 7,1 prósent á milli ára og námu samtals 3,1 milljarði á fjórðungnum samanborið við 2,9 millarða á sama ársfjórðungi 2021. Auknar tekjur í greiðslumiðlun, eignastýringu, fjárfestingarbanka og verðbréfa- og gjaldeyrismiðlun leiddu hækkunina.

Bankinn leggur aðaláherslu á kjarnastarfsemi og á fyrsta ársfjórðungi námu vaxta- og þóknanatekjur samanlagt 97 prósentum af rekstrartekjum samanborið við 95 prósent í fyrra. Þessir tveir tekjuliðir jukust um 11,0 prósent á milli fyrsta ársfjórðungs 2021 og fyrsta ársfjórðungs 2022.

Hrein fjármunagjöld námu 95 milljónum samanborið við 293 milljóna tekjur í fyrra.

Stjórnunarkostnaður nam 5,8 milljörðum á fyrsta ársfjórðungi sem er lækkun um 0,3 prósent frá sama tímabili í fyrra og má rekja til áframhaldandi hagræðingar í rekstri.

Kostnaðarhlutfall bankans lækkaði á milli ára í 47,6 prósent á fyrsta ársfjórðungi 2022, innan leiðbeinandi bils fyrir árið 2022, úr 51,3 prósent á sama tímabili í fyrra, aðallega vegna sterkrar tekjumyndunar og hagkvæmari reksturs.

Virðisrýrnun var jákvæð á ársfjórðungnum um 483 milljónir og skýrist helst af batnandi útliti í ferðaþjónustu. Á fyrsta ársfjórðungi 2021 var virðisrýrnun neikvæð um 518 milljónir. Áhættukostnaður útlána (e. cost of risk) var -0,17 prósent á ársgrundvelli á fyrsta ársfjórðungi 2022 samanborið við 0,20 prósent á sama tímabili í fyrra.

Útlán til viðskiptavina jukust um 21,6 milljarða á fjórðungnum, eða um 2,0 prósent og voru 1.108 milljarðar í lok mars 2022. Aukninguna má að mestu rekja til húsnæðislána.

Innlán frá viðskiptavinum jukust um 17,4 milljarða á fyrsta ársfjórðungi 2022 eða um 2,3 prósent og voru 761 milljarðar í lok mars. Aukninguna má að mestu rekja til sölu ríkisins á bankanum.

Lausafjárstaða bankans er áfram sterk og öll lausafjárhlutföll vel yfir innri viðmiðum bankans og kröfum eftirlitsaðila.

Eigið fé bankans nam 197,2 milljarðar í lok mars 2022. Samsvarandi eiginfjárgrunnur, sem inniheldur viðbótareiginfjárþátt 1 og eiginfjárþátt 2, lækkaði úr 228 milljörðum í 210 milljarða vegna samþykktar aðalfundar á 15 milljarða endurkaupum á eigin bréfum. Eiginfjárhlutfall bankans var 22,5 prósent, að hagnaði fyrsta ársfjórðungs meðtöldum, samanborið við 25,3 prósent í árslok 2021. Samsvarandi eiginfjárhlutfall almenns þáttar 1 var 18,8 prósent samanborið við 21,3 prósent í árslok 2021. Það er vel yfir markmiði bankans sem er 16,5 prósent. Lækkun eiginfjárhlutfalla á fjórðungnum skýrist af lækkun á eiginfjárgrunni og hækkun á áhættugrunni (REA).

Bankinn metur að umfram eigið fé eiginfjárhlutfalls almenns þáttar 1 sé nú um 35-40 milljarðar og stefnt er að bestu samsetningu þess á næstu 12–24 mánuðum.

Vogunarhlutfallið var 12,4 prósent í lok mars, að hagnaði fyrsta ársfjórðungs meðtöldum, samanborið við 13,6% í árslok 2021, sem telst hátt í alþjóðlegum samanburði

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka

„Við erum ánægð með afkomu bankans á fyrsta ársfjórðungi sem nam 5,2 milljarðar króna. Arðsemi eigin fjár var 10,2 prósent sem er í takti við arðsemismarkmið bankans. Hreinar vaxtatekjur uxu um 12,4 prósent miðað við sama fjórðung í fyrra og vaxtamunur tímabilsins hækkaði í 2,6 prósent. Hreinar þóknanatekjur jukust um 7,1 prósent miðað við sama fjórðung í fyrra sem kemur frá flestum tekjuþáttum. Kostnaður stóð í stað samanborið við sama fjórðung í fyrra þrátt fyrir 6,1 prósent verðbólgu á fjórðungnum en markmið okkar er að kostnaður á árinu 2022 verði á svipuðum stað og í fyrra. Útlán til viðskiptavina jukust um 2 prósent frá áramótum sem er í takt við markmið okkar um vöxt í takt við nafnhagvöxt.

Á fjórðungnum hélt ríkið áfram sölu á hlut sínum í bankanum í kjölfarið af vel heppnuðu frumútboði í fyrra og fer ríkið nú með 42,5 prósent eignarhlut. Mikil umræða hefur skapast í samfélaginu um söluferlið og það fyrirkomulag sem notast var við. Meðal annars hefur komið fram gagnrýni á þátttöku starfsmanna bankans í útboðinu. Því tökum við alvarlega og stendur vinna yfir við breytingar á reglum bankans varðandi verðbréfaviðskipti starfsmanna.

Eins og oft hefur komið fram hefur tæknin umbylt bankaþjónustu á undanförnum árum og er ánægjulegt að sjá hversu viðskiptavinir okkar taka þeirri framþróun fagnandi. Á dögunum settum við í loftið nýjan söluvef sem einfaldar einstaklingum og lögaðilum að stofna til viðskipta, bæta við sig þjónustuþáttum og skoða vöruframboð bankans. Rafræn sala á einstaklingsmarkaði er nú um 75 prósent af allri sölu og með þessum nýja vef erum við viss um að við náum enn betri árangri á því sviði. Þar má meðal annars finna nýjan sjálfbæran sparnaðarreikning sem hefur fengið góðar viðtökur viðskiptavina.

Útlitið fyrir árið 2022 er bjart þar sem horfur í efnahagslífinu eru góðar og benda fyrstu merki til þess að ferðaþjónustan nái aftur fyrri hæðum.“