Hreinar vaxtatekjur námu samtals 34,0 milljörðum á árinu 2021 sem er hækkun um 2,0 prósent á milli ára og skýrist af stærra lánasafni. Vaxtamunur fyrir árið 2021 var 2,4 prósent samanborið við 2,6 prósent á árinu 2020 þar sem vextir voru að meðaltali lægri á árinu 2021.

Hreinar þóknanatekjur hækkuðu um 22,1 prósent á milli ára og námu samtals 12,9 milljörðum. á árinu 2021. Vöxturinn dreifist nokkuð jafnt eftir liðum sem sýnir sterkan tekjugrunn.

Hreinar fjármunatekjur námu 2,5 milljörðum á árinu 2021 samanborið við tap árið 2020 að fjárhæð 1,4 milljarða þar sem markaðsaðstæður voru betri á árinu 2021.

Stjórnunarkostnaður hækkaði um 2,0 prósent á milli ára en hækkunina má aðallega rekja til einskiptiskostnaðar í tengslum við skráningu bankans eða um 521 milljónir. Launakostnaður jókst um 3,7 prósent á árinu sem má rekja til kjarasamningshækkana, einskiptiskostnaðar vegna skráningar bankans og hærri kostnaðar vegna starfsloka.

Kostnaðarhlutfall lækkaði verulega á milli ára, úr 54,3 prósentum árið 2020 í 46,2 prósent árið 2021.

Bjart fram undan

Hrein virðisrýrnun á árinu 2021 var jákvæð um 3,0 milljarða samanborið við neikvæða virðisrýrnun að fjárhæð 8,8 milljarða á árinu 2020. Jákvæð virðisrýrnun er aðallega tilkomin vegna bjartari horfa í ferðaþjónustu, en á árinu 2020 var neikvæð virðisrýrnun tengd upphafi heimsfaraldurs COVID-19. Áhættukostnaður útlána var -0,28 prósent fyrir árið 2021 samanborið við 0,91 prósent árið 2020.

Útlán til viðskiptavina jukust um 7,9 prósent á árinu 2021, sem má að mestu rekja til aukinna umsvifa á húsnæðislánamarkaði.

Í lok árs 2021 hafði hlutfall lána með laskað lánshæfi (vergt bókfært virði) lækkað í 2,0 prósent úr 2,9 prósent í lok árs 2020, aðallega vegna uppgreiðslu lána á stigi 3.

Innlán frá viðskiptavinum jukust um 64,6 milljarða á árinu 2021, eða 9,5 prósent, sem má að mestu rekja til aukningar innlána hjá Viðskiptabanka en innlán jukust einnig hjá Einstaklingum.

Vogunarhlutfall var 13,6 prósent í lok árs 2021, óbreytt frá lok árs 2020.

11,9 milljarðar í arð og 15 milljarðar í kaup eigin bréfa

Á aðalfundi bankans mun stjórn Íslandsbanka leggja til 11,9 milljarða arðgreiðslu sem er í samræmi arðgreiðslustefnu bankans.

Stefnt er að því að greiða út umfram eigið fé eiginfjárhlutfall almenns þáttar 1, sem metið er á um 40 milljarða að frádreginni arðgreiðslu, á næstu 12–24 mánuðum. Stjórn bankans mun leggja til við aðalfund kaup á eigin bréfum að fjárhæð 15 milljarða á næstu mánuðum, að gefnu samþykki Seðlabanka Íslands. Þrír kostir koma til greina og eru til skoðunar: endurkaupaáætlun, endurkaupatilboð (e. tender offer) eða þátttaka í hlutasölu (e. block sale participation).

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka:

„Fjórði ársfjórðungur var góður í rekstri Íslandsbanka og með honum ljúkum við ánægjulegu og viðburðarríku ári 2021. Hlutabréf bankans voru tekin til viðskipta í júní og markaði það upphaf á nýjum kafla í rekstri bankans. Áframhaldandi ráðstafanir bankans vegna COVID-19 og útsjónarsemi starfsfólks bankans í þjónustu við viðskiptavini, í síbreytilegum og krefjandi aðstæðum, stóðu einnig upp úr á árinu.

Á fjórðungnum nam hagnaður bankans 7,1 milljörðum og arðsemi var 14,2 prósent, sem er umfram markmið bankans og væntingar markaðsaðila. Á árinu 2021 nam hagnaðurinn 23,7 milljörðum og arðsemin 12,3 prósentum. Tekjur bankans á fjórðungnum hækkuðu um 8,8 prósent frá fyrra ári og þar af hækkuðu hreinar þóknanatekjur um 27,5 prósent milli ára. Áframhaldandi hagræði í rekstri á fjórðungnum leiddi til lækkunar á kostnaði um 5 prósent frá fyrra ári og raunlækkunar um 9,4 prósent. Kostnaðarhlutfall var við markmið bankans, 45 prósent. Á fjórðungnum hækkaði jákvæð virðisbreyting útlána, sem nam 0,6 milljörðum, og tekjur af aflagðri starfsemi, sem nam 1,1 milljarði, hagnað bankans. Útlán til viðskiptavina jukust um 4,9 milljarða á fjórðungnum eða um 7,9 prósent á árinu 2021. Aukningin var að mestu tilkomin vegna húsnæðislána en þeir viðskiptavinir nutu lægri kjara á árinu þar sem bankinn gat boðið enn samkeppnishæfari vexti í kjölfar vaxtalækkana Seðlabankans á árinu 2020. Innlán frá viðskiptavinum jukust um 9,5 prósent á árinu 2021.

Sjálfbærar lánveitingar jukust um 134 prósent á árinu og nema nú 6 prósentum af heildarútlánum bankans. Okkar stærsta tækifæri sem hreyfiafl til góðra verka felst í að styðja við viðskiptavini okkar á sjálfbærnivegferð þeirra og fjármagna vegferðina að kolefnishlutleysi. Sú staðreynd að fjármagnaður útblástur árið 2020 var 360 sinnum hærri en útblástur frá rekstri bankans undirstrikar þetta. Við höfum sett okkur skýr markmið fyrir árið 2022 að auka hlutdeild sjálfbærra lána og munum einnig kynna opinberlega staðfest vísindaleg markmið heildarútblásturs til skamms og meðallangs tíma.

Við höfum lagt okkur fram um að vera hreyfiafl til góðra verka svo viðskiptavinir okkar nái árangri. Á árinu var bankinn meðal annars með mestu veltu á skuldabréfamarkaði, hæstu ávöxtun hlutabréfasjóðs og leiðandi í fyrirtækjaráðgjöf. Jafnframt hafa fyrirtæki í viðskiptum við Íslandsbanka endurtekið mælst ánægðustu viðskiptavinirnir meðal samkeppnisaðila í þjónustukönnunum og á einstaklingshliðinni eru yfir 90% viðskiptavina með húsnæðislán ánægð með þjónustu bankans.

Síðustu misseri höfum við unnið markvisst að því að besta efnahagsreikning bankans og á aðalfundi, sem haldinn verður í mars næstkomandi, munum við óska eftir samþykki hluthafa til að hefja útgreiðslu umfram eiginfjár samhliða árlegri arðgreiðslu í samræmi arðgreiðslustefnu bankans. Við erum spennt fyrir árinu 2022, frekari sölu á eignarhlut ríkisins í bankanum og tækifærunum sem fram undan eru með viðskiptavinum okkar og samstarfsaðilum.“