Hagnaður Into the glacier, sem rekur ísgöng í Langjökli, nam 69 milljónum króna á síðasta ári samanborið við 139 milljónir á árinu 2017.

Í nýbirtum ársreikningi félagsins kemur fram að tekjur hafi numið 840 milljónum króna og dregist saman um tæplega 10 prósent. Rekstrargjöld námu 760 milljónum og jukust tæplega 10 prósent. Hefur stjórn Into the glacier lagt til að greiddar verði 50 milljónir króna í arð til hluthafa.

Markaðurinn greindi frá því í vor að mikill samdráttur í aðsókn ferðamanna í ísgöngin hefði sett strik í reikninginn í viðræðum eigenda Arctic Adventures og Into the Glacier um kaup fyrrnefnda félagsins á því síðarnefnda og var þá óvíst hvort kaupin myndu ganga eftir. Í sumar var síðan hætt við kaupin.

Samkomulagið sem forsvarsmenn Arctic Adventures og Into the Glacier gerðu með sér í janúar fól í sér að fyrrnefnda félagið keypti allt hlutafé í því síðarnefnda af framtakssjóðnum Icelandic Tourism Fund, sem er í rekstri Landsbréfa og fer með 94 prósenta hlut í rekstrarfélagi ísganganna, og Sigurði sem heldur á tæplega sex prósenta hlut í félaginu.

Til viðbótar stóð til að Arctic Adventures keypti eignarhluti framtakssjóðsins í fjórum afþreyingarfyrirtækjum í ferðaþjónustu, Óbyggðasetrinu í Fljótsdal, Raufarhólshelli, Borea Adventures á Ísafirði og leiksýningunni Icelandic Sagas – The greatest hits, sem sýnd er í Hörpu. Kaupin á þessum fjórum fyrirtækjum hafa enn ekki gengið í gegn.