Hagnaður sænsku fataverslanakeðjunnar H&M hér á landi dróst saman um 53 prósent á milli ára, eða í 50 milljónir króna rekstrarárið sem spannaði frá 1. desember 2018 til 30. nóvember árið 2019. Samdráttinn má einkum rekja til þess að félagið hóf að greiða fjármagnsgjöld, til aukinna afskrifta og aukins launakostnaðar.

Verslanakeðjan rekur sex verslanir hér á landi. Þrjár H&M-verslanir sem voru allar opnaðar fyrir síðasta rekstrarár, auk COS, Monki og Weekday sem voru opnaðar á rekstrarárinu.

Tekjur H&M á Íslandi jukust um 37 prósent á milli ára og námu 3,3 milljörðum króna á síðastliðnu rekstrarári. Fjöldi ársverka á árinu var 140 samanborið við 74 árið áður. Í lok árs voru 87 prósent starfsmanna konur en 13 prósent karlar, að því er fram kemur í ársreikningi.

Arðsemi eiginfjár á tímabilinu var 32 prósent. Eiginfjárhlutfallið var 15 prósent en eigið fé var 178 milljónir króna. Vaxtaberandi lán frá samstæðunni námu 703 milljónum króna. Samkvæmt ársreikningi nema árlegar leigugreiðslur um 174 milljónum króna.

Fram kemur í ársreikningi að verslanakeðjan muni „halda áfram með áætlaða stækkun og opna nýja verslun á árinu 2020.“ Upplýst var síðastliðið sumar að H&M muni opna verslun á Glerártorgi á Akureyri í haust.

Sænska verslanakeðjan upplýsir að í mars þegar viðbrögð stjórnvalda við COVID-19 tóku gildi hérlendis hafi tekjur hafi dregist saman um 43 prósent á milli ára. Staðan hafi batnað aðeins í apríl og um miðjan maí var salan níu prósent minni en árið áður. Það gefi tilefni til hóflegrar bjartsýni.

Í ársreikningum segir að það taki tíma að ná stöðugleika á nýjum mörkuðum. „Þrátt fyrir þær áskoranir sem fylgja COVID-19 þá er þetta langtímafjárfesting á nýjum markaði.“ Eins og sjóðsstreymið gefi til kynna sé fyrirtækið með góða lausafjárstöðu. Fyrirtækið muni fá fjárhagslegan stuðning frá samstæðunni ef þörf krefji. Ekki sé þörf á því eins og sakir standa.