Hagnaður Festi, sem er meðal annars eigandi N1, Krónunnar og Elko, nam 1.480 milljónum króna og jókst um liðlega 500 milljónir frá sama tímabili í fyrra. Þá var hagnaður fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta (EBITDA) 2.617 milljónir króna sem er rúmlega 61 prósent aukning á milli ára.

Þetta kemur fram í nýbirtu uppgjöri félagsins sem Eggert Þór Kristófersson, forstjóri Festi, segist vera „mjög ánægður“ með.

Afkoma Festi á fjórðungnum er þannig umtalsvert betri en hagfræðideild Landsbankans gerði ráð fyrir í sinni spá en hún gerði ráð fyrir því að hagnaður félagsins yrði 955 milljónir og að EBITDA um 2.424 milljónir.

Í afkomutilkynningu félagsins kemur fram að sala Krónunnar hafi verið yfir áætlun á þriðja ársfjórðungi en hins vegar var minni sala annarra vara en eldsneytis í N1 en gert hafði verið ráð fyrir. Selt magn af bensíni og gasolíu minnkaði um rúmlega 5 prósent á fjórðungnum á milli ára.

EBITDA spá Festi fyrir árið 2019 er óbreytt og gerir ráð fyrir að EBITDA muni verða á bilinu 7.400 til 7.700 milljónum króna að undanskildum kostnaði við kaup á Hlekk en sá kostnaður er kominn fram.

Eigið fé Festi var um 28 milljarðar króna í lok þriðja ársfjórðungs og eiginfjárhlutfallið tæplega 34 prósent.