Hagnaður byggingavöruverslunarinnar BYKO jókst um ríflega níu prósent á árinu 2019 og nam tæplega 968 milljónum króna, að því er kemur fram í nýbirtum ársreikningi félagsins. Veltuaukning var um fjögur prósent milli ára.

Heildartekjur BYKO á árinu 2019 voru tæplega 20 milljarðar króna, miðað við 19,2 milljarða árið áður. Launakostnaður fyrirtækisins hækkaði um 300 milljónir á síðasta ári og skreið yfir þrjá milljarða.

Í skýringum með ársreikningnum kemur fram að vænta megi þess að Covid-19-faraldurinn muni hafi einhver áhrif á rekstur fyrirtækisins. „Félagið brást strax við þessum aðstæðum og hefur á undanförnum mánuðum gripið til ýmissa aðgerða meðal annars með því að óska eftir lengri gjaldfrestum frá lánadrottnum félagsins [og] lágmörkun á ráðningu sumarafleysingafólks,“ segir í ársreikningnum.

Að síðustu er tekið fram að mat stjórnenda félagsins sé að ástandið muni ekki hafa áhrif á rekstrarhæfi félagsins, en eigið fé félagsins við árslok 2019 var 2,35 milljarðar og eiginfjárhlutfall um 40 prósent. Ákvörðun verður tekin um arðgreiðslu fyrir árið 2019 á næsta aðalfundi félagins, en síðustu tvö ár hefur BYKO borgað út 800 milljónir í ár á ári.

BYKO er að fullu í eigu Norvikur hf, sem er svo aftur í eigu fjárfestisins Jóns Helga Guðmundssonar.