Almenna leigufélagið, eitt stærsta leigufélag landsins, hagnaðist um 22 milljónir króna á síðasta ári, samkvæmt nýlegum ársreikningi félagsins. Til samanburðar nam hagnaður ársins 2018 tæplega 400 milljónum króna og dróst hann því saman um 95 prósent milli ára.

EBITDA leigufélagsins – afkoma fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta – var jákvæð um tæpa 1,7 milljarða króna í fyrra borið saman við 1,5 milljarða króna árið 2018 og hækkaði þannig um ríflega tólf prósent á milli ára. Matsbreyting fjárfestingareigna var um 94 milljónir króna í fyrra en til samanburðar var hún 1.050 milljónir króna árið áður.

Fjármagnsgjöld Almenna leigufélagsins voru alls 1,8 milljarðar króna í fyrra og lækkuðu um tæpar 200 milljónir króna frá árinu 2018.

Rekstrartekjur leigufélagsins, sem átti í lok síðasta árs alls 1.230 íbúðir, voru liðlega 3,0 milljarðar króna í fyrra samanborið við tæplega 2,8 milljarða króna árið 2018. Þá nam rekstrarkostnaður þess nærri 1,4 milljörðum króna á síðasta ári og jókst um hátt í fimm prósent á milli ára.

Í skýrslu stjórnar Almenna leigufélagsins er tekið fram að áhrifa kórónaveirunnar gæti fyrst og fremst í skammtímaleigustarfsemi félagsins vegna mikils samdráttar í eftirspurn. Í lok síðasta árs voru 98 íbúðir í skammtímaleigu en félagið vinnur nú að því færa íbúðir úr slíkri leigu í langtímaleigu samhliða því sem ráðist hefur verið í hagræðingaraðgerðir í rekstri skammtímaleigunnar.

Til þess að fyrirbyggja aukin vanskil í langtímaleigurekstrinum hefur leigufélagið boðið þeim viðskiptavinum sem lenda í tímabundnum tekjumissi, að lækka greiðslubyrði tímabundið og dreifa greiðslum yfir lengra tímabil.

Er það jafnframt mat stjórnar og stjórnenda félagsins að ekki séu forsendur á þessari stundu til þess að gera aðlaganir á gangvirðismati fjárfestingareigna þess, eins og það er orðað í ársreikningnum, en umræddar eignir leigufélagsins voru metnar á ríflega 46 milljarða króna í lok síðasta árs.