Hagnaður samstæðu 1912, sem á heildsöluna Nathan & Olsen og Ekruna sem þjónustar stóreldhús, jókst um 15 prósent á milli ára og nam 250 milljónum króna árið 2018. Tekjur jukust um 14 prósent á milli ára og námu átta milljörðum króna við árslok.

1912 er í eigu Kristínar Fenger Vermundsdóttur og barna hennar, Ara Fenger forstjóra og Bjargar Fenger.­

Arðsemi eiginfjár samstæðunnar var 50 prósent á árinu 2018. Eigið fé var 515 milljónir króna. Eiginfjárhlutfall samstæðunnar var 21 prósent en var 32 prósent hjá móðurfélaginu.

Tekjur heildsölunnar, sem selur til dæmis Cheerios, Biotex og Heinz, jukust um þrjú prósent á milli ára og námu 4,1 milljarði króna árið 2018. Hagnaður dróst saman um tvö prósent á milli ára og nam 165 milljónum króna.

Arðsemi eiginfjár Nathan & Olsen var 66 prósent á árinu 2018. Eiginfjárhlutfallið var 30 prósent.

Fram kom í Fréttablaðinu í sumar að 1912 hafi keypt meirihluta í Emmessís.