Fjár­mála­stjóri Össurar, Sveinn Sölva­son, keypti í gær 225 þúsund hluti í Össuri á grund­velli kaup­réttar­samnings í fé­laginu en seldi þá síðan aftur með 88 milljóna króna hagnaði. Þetta kemur fram í til­kynningu frá Össuri til kaup­hallarinnar en Við­skipta­blaðið greindi fyrst frá.

Að því er kemur fram í frétt Við­skipta­blaðsins keypti Sveinn hlutina á 24,99 danskar krónur, alls um 5,6 milljónir danskra króna, og seldi síðan tveimur mínútum síðar á 43,25 danskar krónur, alls um 9,7 milljónir danskra króna. Í ís­lenskum krónum er munurinn þar á milli um 88 milljónir.

Kaup­réttar­samningur Sveins var frá 24. febrúar 2017 en gengið sem Sveinn keypti hlutina á miðaðist við þann samning. Í lok dags 24. febrúar stóðu bréf Össurar í 26,1 danskri krónu á hlut en í lok gær­dagsins stóðu þau í 44,1 krónu á hlut og er því um að ræða nærri 70 prósent hækkun.

Sveinn Sölvason er fjármálastjóri Össurar.
Mynd/Össur