Hagvöxtur á Íslandi verður 3,2 prósent í ár, 5,0 prósent á næsta ári og 3,6 prósent árið 2023, ef Þjóðhagsspá Íslandsbanka nær fram að ganga. Gert er ráð fyrir um 700 þúsund ferðamönnum í ár og að þeim fjölgi um ríflega 40 prósent á milli ára, þeir verði 1,3 milljónir árið 2022 og 1,5 milljónir árið 2023.

Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, segir að hagspáin sé mjög næm fyrir fjölda ferðamanna sem hingað koma því þeir hafi margvísleg áhrif á hagkerfið. Fjöldinn hafi áhrif á útflutningstekjur, þróun krónu, verðbólgu, atvinnuleysi, fjárfestingarákvarðanir og einkaneyslu. „Ef við náum upp undir helmingi af fjölda ferðamanna ársins 2019 hefur það í för með sér að hagkerfið verður að líkindum komið á skrið á seinni helmingi ársins,“ segir hann.

Þrjár sviðsmyndir

Greining Íslandsbanka lagði upp með þrjár sviðsmyndir. Samkvæmt dekkri sviðsmynd koma einungis 400 þúsund ferðamenn til Íslands í ár og við það yrði hagvöxtur um eitt prósent. Rætist bjartari sviðsmyndin muni fjöldi ferðamanna nema 970 þúsundum og hagvöxtur verða 4,6 prósent. „Við vildum hafa inni sviðsmyndir sem væru ekki fram úr óhófi ólíklegar,“ segir Jón Bjarki.

Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka.

COVID-19 heimsfaraldurinn hefur verið í sókn á undanförnum vikum í öllum viðskiptalöndum okkar en Jón Bjarki segir að teikn séu á lofti um að hann sé að byrja að hjaðna aftur. „Þegar litið er á stóru myndina eigum við ekki að vera of upptekin af tímabundnum hnökrum varðandi framleiðslu og útbreiðslu bóluefna. Íslenska hagkerfið var vel undirbúið fyrir stóran skell. Það hafa orðið miklar breytingar á hagkerfinu sem endurspeglast í því að við erum ekki með verulegan viðskiptahalla þrátt fyrir að nærri þriðjungur af útflutningstekjunum hafi nánast gufað upp. Það stingur í stúf því Ísland hefur verið með viðvarandi viðskiptahalla allt frá lýðveldisstofnun.

Það kemur að miklu leyti til af því að við erum með sterka erlenda stöðu og hagstjórn sem nýtur trúverðugleika. Sú góða vinna sem hefur verið unnin af stjórnvöldum hefur til dæmis skilað okkur í miklu bærilegri gengisveikingu en annars væri. Aukinn trúverðugleiki og að Seðlabankinn var virkur á gjaldeyrismarkaði þegar mest lá við í fyrra haust kom í veg fyrir snarpa veikingu. Við getum vel unað við okkar hagstjórnarviðbrögð miðað við önnur lönd,“ segir hann.

Samkvæmt Þjóðhagsspánni er gert ráð fyrir 9,4 prósenta atvinnuleysi að meðaltali í ár, 4,6 prósenta atvinnuleysi á næsta ári og 3,3 prósenta atvinnuleysi árið 2023. Ástandið á vinnumarkaði fari líklega ekki að skána að ráði fyrr en undir mitt ár. „Þróun atvinnuleysis hangir að mestu leyti saman við endurreisn ferðaþjónustunnar,“ segir Jón Bjarki.

Auka þarf íbúðafjárfestingu

Að hans sögn þarf að skapa skilyrði til að íbúðafjárfesting verði aukin. „Allir sem að því koma ættu að horfa til þess að það verði ekki flöskuháls í íbúðafjárfestingu á komandi misserum. Það er að sýna sig að eftirspurnin er mun stöðugri og myndarlegri en óttast var en á sama tíma er framboðið að skreppa saman jafnt og þétt. Það er áhyggjuefni enda hafa vaxtalækkanir skilað meiri kaupgetu. Að óbreyttu kann þetta ástand að leiða til talsverðra verðhækkana,“ segir Jón Bjarki. Samkvæmt spánni er reiknað með að íbúðafjárfesting verði komin aftur á skrið árið 2023.

Jón Bjarki segir að skapa þurfi skilyrði til að íbúðafjárfesting verði aukin.

Reiknað er með að verðbólga verði að meðaltali þrjú prósent í ár, 2,2 prósent á næsta ári og 2,3 árið 2023. Styrking krónu, sem haldast mun í hendur við fjölda ferðamanna, mun meðal annars halda aftur af verðbólgunni. Líkur eru á að stýrivextir verði óbreyttir eða 0,75 prósent fram á næsta ár. Gert er ráð fyrir að þeir hækki hægt og bítandi og verði að meðaltali 1,5 prósent árið 2022 og 2,6 prósent 2023. „Enn lengra gæti verið í hækkun vaxta slái í bakseglin og gangi efnahagsbatinn hægar en vonir standa til um,“ segir í Þjóðhagsspánni.