Verg landsframleiðsla minnkaði um 6,6 prósent milli ára á síðasta ári, að því er kemur fram í nýjum tölum frá Hagstofunni. Samdrátturinn er minni en nýjasta spá Seðlabanka Íslands gerir ráð fyrir.

Þjóðarútgjöld, sem eru samtala neyslu og fjárfestingar, er talin hafa dregist saman um 1,9 prósent, einkaneysla um 3,3 prósent, fjárfesting um 6,8 prósent og að samneysla hafi vaxið að raungildi um 3,1 prósent. Opinber útgjöld hafa því dregið úr samdrætti meira en ella hefði orðið.

Í nýjustu spá Seðlabankans frá 3.febrúar var áætlað að þjóðarútgjöld myndu dragast saman um 3,2 prósent, einkaneysla um 4,4 prósent, fjárfesting um 11,7 prósent og aukning samneyslu var áætlið 3,8 prósent. Það er því ljóst að hagkerfinu reiddi nokkuð betur af á síðasta ári en nýjustu spár gerðu ráð fyrir.

„Samdráttur í landsframleiðslu skýrist að verulegu leyti af neikvæðum áhrifum utanríkisviðskipta en innflutningur dróst saman um 22,0 prósent á árinu á meðan útflutningur dróst töluvert meira saman eða um 30,5 prósent. Vöruútflutningur dróst saman um 8,5 prósent á árinu en samdráttur í útfluttri þjónustu mældist 51,2 prósent á ársgrundvelli. Vöruinnflutningur dróst saman um 12,5 prósent á árinu 2020 og innflutningur þjónustu um 38,5 prósent. Vöru- og þjónustujöfnuður var neikvæður um 17,5 milljarða króna á árinu 2020 borið saman við 153,9 milljarða króna jákvæðan jöfnuð árið 2019 á verðlagi hvors árs,“ segir í umfjöllun Hagstofunnar.