Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um 25,5 prósent á ársgrundvelli og hækkunin á þann mælikvarða hefur ekki verið meiri frá því í árslok 2005. Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Þjóðskrá sem birtar voru í gær.

Bergþóra Baldursdóttir, hagfræðingur hjá Íslandsbanka, segir það vera greinilegt að aðgerðir Seðlabankans séu farnar að bíta talsvert og vísar þar til hækkandi vaxta og hertra skilyrða á lánamarkaði.

Bergþóra Baldursdóttir, hagfræðingur hjá Íslandsbanka.

„Nú hefur íbúðaverð hækkað hægar síðustu tvo mánuði en mánuðina á undan og einnig eru aðrar vísbendingar um það að markaðurinn sé farinn að róast. Vonandi sjáum við hægari hækkun á næstu mánuðum og þar til jafnvægi myndast,“ segir Bergþóra og bætir við að hafa þurfi í huga að íbúðaverð sé enn að hækka þó svo að hægja hafi tekið á hækkunartaktinum.

„Við teljum að íbúðaverð muni halda áfram að hækka á allra næstu mánuðum en hægar en verið hefur. Það mun svo vonandi ná jafnvægi um mitt næsta ár og jafnvel fyrr með auknu framboði af nýjum íbúðum og dvínandi eftirspurn.“

Bergþóra segir að tölurnar hafi verið í takt við væntingar Greiningar Íslandsbanka.

„Við bjuggumst við minni mánaðarhækkun en í júní og þetta eru góðar fréttir. Gögn fyrir næstu mánuði munu því líklega og vonandi staðfesta að það sé farið að draga úr eftirspurnarþrýstingi á íbúðamarkaði.“