Hagar, sem reka meðal annars verslanir undir merkjum Bónus, Hagkaup og Olís, töpuðu 96 milljónum króna á fyrsta ársfjórðungi þessa árs borið saman við 665 milljóna króna hagnað á sama tíma fyrir ári. Tekju smásölurisans á tímabilinu, sem nær frá mars til maí, námu samtals 28.241 milljónum króna og drógust saman um 1,2 prósent.

Í afkomu tilkynningu frá félaginu kemur fram að fyrstu þrír mánuðir rekstrarársins hafi verið undir áætlunum enda hafi Hagar og dótturfélög þess ekki farið varhluta af áhrifum kórónuveirufaraldursins.

„Áhrifa fór að gæta í mars en áhrifin á félög innan samstæðunnar eru ólík eftir starfsemi þeirra. Tekjuvöxtur var í dagvöruhluta samstæðunnar en samdráttur í olíu-, bensín- og veitingasölu hjá Olís og í sérvöruverslunum. Gengisfall íslensku krónunnar og sú lækkun á heimsmarkaðsverði á olíu sem átti sér stað á tímabilinu hafði áhrif á framlegð og þá voru verðhækkanir birgja töluverðar,“ segir í tilkynningunni.

Söluminnkun var mikil hjá Olís eða 26 prósent milli tímabila en söluaukning var í verslana- og vöruhúsahluta samstæðunnar um 11 prósent.

Þrátt fyrir óvissu er það mat stjórnenda að áhrif faraldursins hafi komið að mestu leyti fram á fyrsta ársfjórðungi. Félagið mun, enn sem komið er, ekki gefa út afkomuspá fyrir rekstrarárið.

Afkoma Haga fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta (EBITDA) nam 1.297 milljónum króna, samanborið við 2.034 milljónir árið áður. Samhliða birtingu ársuppgjörs félagsins í maí var gefin út afkomuspá fyrir ársfjórðunginn, sem svo var leiðrétt vegna breyttra forsenda þann 12. júní. Afkomuspá gerði ráð fyrir að EBITDA yrði 1.100 til 1.250 milljónir króna og er uppgjörið því 3,8% yfir efri mörkum.

Í lok apríl var tilkynnt að forstjóri Haga, Finnur Árnason, og framkvæmdastjóri Bónus, Guðmundur Marteinsson, hefðu óskað eftir að láta af störfum. Áætlaður kostnaður vegna starfsloka stjórnenda félagsins var metinn um 314 milljónir króna en Guðmundur var með þriggja ára uppsagnarfrest en Finnur eitt ár.

Þann 12. júní síðastliðinn var svo tilkynnt að samkomulag hafi náðst við Guðmund um áframhaldandi starf hans sem framkvæmdastjóri Bónus. Eru fjárhagsleg áhrif starfsloka forstjóra koma fram nú á fyrsta ársfjórðungi og nema þau 86,4 milljónum, að því er fram kemur í uppgjöri Haga.