Grænvangur leiðir saman íslensk fyrirtæki og stjórnvöld til að vinna að sameiginlegu markmiði um kolefnishlutlaust Ísland 2040 og sér um verkefnisstjórn Loftslagsvegvísis atvinnulífsins sem er gefinn út annað hvert ár í samvinnu sex atvinnugreinafélaga og Bændasamtakanna. Auk þess kynnir Grænvangur íslenskar grænar lausnir erlendis í samstarfi við Íslandsstofu undir merkjum Green by Iceland.

„Við hjá Högum hlökkum til að taka þátt í starfi Grænvangs. Aðgerðir í losun gróðurhúsalofttegunda er einn af meginþáttum í sjálfbærnimálum Haga. Við höfum farið í viðamiklar innviða aðgerðir til að draga úr losun í okkar starfsemi og munum halda áfram að leggja mikla áherslu á þessi verkefni. Stefna okkar er að Hagar verði áfram leiðandi fyrirtæki á Íslandi þegar kemur að umhverfis- og samfélagslegum málefnum,” segir Finnur Oddsson, forstjóri Haga.

Bakland Grænvangs er víðtækt og telur nú 99 aðila, þeirra á meðal ráðuneyti, orkufyrirtæki, verkfræðistofur og banka sem öll láta sig loftslagsmálin varða. Birta Kristín Helgadóttir, starfandi forstöðumaður Grænvangs, fagnar því að fá Haga í hópinn. ,,Loftslagsmálin verða ekki leyst án aðkomu íslensks atvinnulífs og Grænvangur styrkist við að bjóða velkominn jafn öflugan aðila og Haga, sem starfa á mörgum þeim mörkuðum sem mestu máli skipta í baráttunni fram undan og hafa sett sjálfbærni á oddinn í sinni starfsemi undanfarin ár," segir Birta Kristín.