Hafþór Helgason athafnamaður og fyrrverandi framkvæmdarstjóri Tölvuteks hefur verið ákærður fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum og fyrir peningaþvætti í rekstri einkahlutafélagsins Tölvutek ehf.
Ákæra hefur gefin út af héraðssaksóknara og verður málið þingfest þann 21. mars.
Tölvutek hætti starfsemi þann 24. júní 2019 af „óviðráðanlegum ástæðum“, en fyrirtækið var með stærstu dreifingar- og söluaðilum á tölvum og tölvubúnaði til einstaklinga og rak verslanir í Reykjavík og á Akureyri.
Í ákæru héraðssaksóknara er Hafþóri meðal annars gefið sök að hafa ekki greitt virðisaukaskatt upp á tæpar 14.5 milljónum króna á meðan hann var framkvæmdarstjóri fyrirtækisins.
Einnig er hann sakaður um að hafa ekki staðgreitt opinber gjöld sem haldið var aftur af launum starfsmanna félagsins að fjárhæð tæplega 35.5 milljónir króna.
Samtals er um að ræða tæpar 50 milljóna króna skattalagabrot sem Hafþór er ákærður fyrir.
Kristín Ingileifsdóttir saksóknari sækir málið en hún krefst þess að Hafþór verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Tölvutek velti 1.4 milljörðum króna árið 2017 og 1,5 milljörðum árið áður. Árið 2017 tapaði fyrirtækið 12 milljónum króna fyrir skatta en árið áður hafði það hagnast um fjórar milljónir króna eftir skatta.
Eigið fé fyrirtækisins var 55 milljónir króna árið 2017 og eiginfjárhlutfallið var tólf prósent. Fyrirtækið skuldaði 430 milljónir króna við árslok. Stöðugildi voru þá 45, samkvæmt ársreikningi.