Aflamark í þorski samkvæmt ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar verður ríflega 222 þúsund tonn á næsta fiskveiðiári, sem er um 13 prósent lækkun frá yfirstandandi ári. Mat stofnunarinnar á viðmiðunarstofni þorsks lækkar um 22 prósent milli ára og er stofninn nú metinn á 941 þúsund tonn. Sé tekið tillit til leiðréttinga á stofnmati fyrri ára minnkar stofnstærðin þó aðeins um 4,8 prósent.

Þetta kom fram á kynningarfundi Hafrannsóknarstofnunar vegna ráðgjafar fyrir komandi fiskveiðiár sem hefst í september.

Þrátt fyrir lægra aflamark þarf að fara áratugi aftur í tímann til að finna eins stóran þorskstofn, að sögn Guðmundar Þórðarsonar, sérfræðings hjá Hafrannsóknarstofnun sem kynnti ráðgjöf um aflamrk þorsks á næsta ári.

Hins vegar eru 2013 og 2016 áragangarnir óvenju slakir. Þessir tveir árgangar vega þungt í stofnmati Hafró sem skýrir hvers vegna þorskstofninn hefur verið ofmetinn.

Samkvæmt nýju stofnmati hefur stærð stofnsins verið ofmetin og veiðihlutfall því vanmetið. Stærð stofnsins ofmetin vegna þess að nýliðun var minni en talið var.

Allt þetta leiðir til þess að veiðihlutfall þorsks, sem er hlutfall aflamarks af stofnstærð, hefur verið vanmetið á undanförnum árum. Veiðihlutfall komandi fiskveiðiárs verður 21 prósent, sem er þó hærra en aflaregla þorsks kveður á um.

Fjölgun hefur einnig verið eldri árgöngum þorsks, en þar er vísað til 8 til 14 ára gamalla einstaklinga. Það skýrist að dregið úr sókn á liðnum árum og því ná fleiri einstaklingar hærri aldri. Hlutfall 8-14 ára fisks af öllum lönduðum afla var um 20 prósent árið 2005 en hefur verið á milli 40 og 50 prósent á síðustu árum.

Útflutningsverðmæti þorsks á árinu 2020 var um 130 milljarðar króna, eða tæpur helmingur af öllu útflutningsverðmæta sjávarafurða frá Íslandi.