Hafnar­fjarðar­bær hafði komist að sam­komu­lagi við Kviku banka um að fjár­mála­fyrir­tækinu yrði falið að annast sölu­ferli á eignar­hlut bæjarins í HS Veitum áður en á­kvörðun var tekin um söluna í bæjar­ráði og hófst sam­tal við fyrir­tækið um mánuði fyrr. Í svörum meiri­hluta Hafnar­fjarðar­bæjar við fyrir­spurn minni­hlutans um málið er þó full­yrt að ekki hafi verið gengið til samninga við fjár­mála­fyrir­tækið fyrr en eftir að bæjar­ráð hafi sam­þykkt sölu hlutarins.

Ráðningarbréf tilbúið í apríl

Hafnar­fjarðar­bær sam­þykkti á bæjar­ráðs­fundi þann 22. apríl síðastliðinn að selja hlut sinn í HS Veitum vegna bágrar fjár­hags­stöðu sveitar­fé­lagsins vegna heims­far­aldurs kórónu­veirunnar. Hluturinn nemur 15,42 prósentum í HS Veitum. Í fyrra var 13 prósenta hlutur í Veitum seldur á rúma þrjá milljarða króna. Bæjar­full­trúar meiri­hlutans, Sjálf­stæðis­flokks og Fram­sóknar, sam­þykktu söluna á fundinum en full­trúar minni­hlutans lögðust flestir gegn henni. Að­eins tveimur dögum síðar hafði samningur verið gerður við Kviku banka um að annast sölu hlutarins en full­trúar minni­hlutans fréttu þó ekki af að­komu Kviku fyrr en í fjöl­miðlum þann 7. maí.

Í kjöl­farið, þann 20. maí, lagði full­trúi Sam­fylkingarinnar Adda María Jóhanns­dóttir fram fyrir­spurn til bæjar­ráðs þar sem óskað var eftir öllum gögnum um samninginn og meðal annars spurt hve­nær á­kvörðun hafi verið tekin um að fela Kviku banka að selja hlutinn. Svar við fyrir­spurninni barst síðan ekki fyrr en þann 3. júní en þar segir: „Gengið var til samninga við Kviku banka í kjöl­far þess að sam­þykkt var í bæjar­ráði að hefja at­hugun á sölunni“.

Tölvu­póstar milli svið­stjóra fjár­mála­sviðs Hafnar­fjarðar­bæjar og verk­efna­stjóra fyrir­tækja­ráð­gjafar Kviku banka, sem Frétta­blaðið hefur undir höndum, sýna þó að sam­tal um að Kvika annaðist sölu hlutarins hefur hafist að minnsta kosti þann 24. mars í ár og að ráðningar­bréf vegna verksins hafi verið til­búið þann 14. apríl.

Fyrstu tölvupóstsamskipti sviðstjórans og starfsmanns Kviku. Pósturinn sýnir að þau hafi þó einnig rætt saman fyrr.
Skjáskot
Svar verkefnastjóra Kviku við fyrsta póstinum frá Hafnarfjarðarbæ.
Skjáskot

Kvika vildi klára samþykkt í bæjarráði sem fyrst

„Takk fyrir góðan fund áðan. Með­fylgjandi er kynningin sem ég fór yfir á fundinum,“ segir í tölvu­pósti frá verk­efna­stjóra Kviku til svið­stjóra fjár­mála­sviðs Hafnar­fjarðar­bæjar, dag­settum 3. apríl. Tæpum tveimur vikum síðar segir í tölvu­pósti titluðum „Ráðningar­samningur“ að ráðningar­bréf út af sölunni sé til­búið. Í því sé annars vegar að finna staðlaða skil­mála Kviku og hins vegar ráð­gjafa­samning sem inni­haldi þóknun bankans í prósentu af sölunni.

„Varðandi sam­þykkt í bæjar­ráði þá er ég búinn að vera að hugsa það og tel að þið ættuð bara að reyna að klára það sem fyrst.“
Skjáskot

Af póstinum má skilja að komist hafi verið að sam­komu­lagi um að fjár­mála­fyrir­tækið annaðist söluna fyrir páska í ár: „Eins og við ræddum fyrir páska höfum við hafið vinnu við að upp­færa kynninguna og erum langt komin með það. Í fram­haldinu myndum við vilja fara og hitta Júlíus og ræða málið að­eins við hann. Við þurfum svo að heyra í öðrum hlut­höfum uppá for­kaups­réttinn.“

„Varðandi sam­þykkt í bæjar­ráði þá er ég búinn að vera að hugsa það og tel að þið ættuð bara að reyna að klára það sem fyrst. Við erum nánast til­búin með kynninguna svo að um leið og sam­þykkið liggur fyrir gætum við hafið sam­talið við fé­lagið sem og aðra hlut­hafa,“ segir verk­efna­stjóri Kviku í sama pósti til svið­stjórans.

Í öðrum pósti dag­settum 20. apríl, tveimur dögum fyrir bæjar­ráðs­fundinn þar sem salan var sam­þykkt og full­trúar minni­hlutans heyra fyrst af á­formum um sölu, er svo að finna upp­færðan ráðningar­samning Kviku við Hafnar­fjarðar­bæ „í takt við það sem við ræddum í símanum áðan á­samt stöðluðu skil­málunum“.

Bæjar­ráðs­fundur hófst í morgun klukkan átta og hefur bæjar­full­trúi Sam­fylkingarinnar Adda María farið fram á að þessir tölvu­póstar, sem Frétta­blaðið hefur undir höndum, verði lagðir fram á fundinum og gerðir opin­berir. Í sam­tali við Frétta­blaðið í morgun sagðist hún ó­sátt við að minni­hlutinn hafi ekki verið upp­lýstur um þetta og ekki fengið svör um þessi sam­skipti bæjarins við Kviku þegar fyrir­spurnin var lögð fram. „Ég hafði á til­finningunni að það hefði eitt­hvað verið í gangi sem við vissum ekki af,“ segir hún.

Bæjarstjórinn neitar að hafa gert samning fyrir bæjarráðsfund

Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, vísaði því á bug í samtali við Fréttablaðið í morgun að bærinn hafi gert samning við Kviku banka áður en söluferlið var samþykkt í bæjarráði.

„Ákvörðun um að fara í söluferli og að semja við Kviku var tekin að vel íhuguðu máli en fyrirtækið hafði séð um sölu á hlut í HS-veitum nokkrum mánuðum áður og þekkti því félagið afar vel og allan grundvöll fyrir hugsanlegu söluferli á þessum tímapunkti. Endanleg ákvörðun um að fara í söluferlið var síðan tekin í bæjarráði, eftir að mat hafði verið lagt á getu Kviku til að ná góðri niðurstöðu fyrir Hafnarfjörð og að samið væri þannig að tryggt væri að áhætta bæjarins væri lágmörkuð, m.a. með því að bærinn gæti dregið sig út úr ferlinu án kostnaðar,“ segir Rósa.

„Það hefði verið mun ábyrgðarlausara að leggja það fyrir bæjarráð að samþykkja að fara í söluferli áður en fyrir lægi að grundvöllur væri fyrir að fara í slíka vegferð.“